Vegna umræða í fjölmiðlum um að umhverfisráðherra hafi brotið lög með úrskurði sínum um Suðvesturlínu vill umhverfisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:

Fullyrðingar þess efnis að úrskurðurinn sé ólögmætur vegna þess að málshraðareglur hafi verið brotnar eiga ekki við rök að styðjast. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er frestur ráðherra til að úrskurða vegna mats á umhverfisáhrifum tveir mánuðir frá því að kærufrestur rennur út. Í dómaframkvæmd og samkvæmt fræðikenningum hefur það eitt og sér ekki verið talið valda ógildi stjórnvaldsákvarðana þótt farið hafi verið fram úr lögbundnum afgreiðslufrestum.

Þá vill ráðuneytið taka fram að ástæður fyrir töf á afgreiðslu ráðuneytisins í þessu máli voru vegna umfangs og eðli málsins sem krafðist þess að afla þurfti umsagna og álita víða.

Umhverfisráðuneytið tekur undir þær ábendingar að málshraði sé oft og  tíðum ekki í samræmi við lögbundna fresti. Það skal tekið fram að ráðuneytið hefur nú til skoðunar hvort ástæða sé til að lengja úrskurðarfresti vegna laga um mat á umhverfisáhrifum með hliðsjón af eðli þeirra mála og þeim kröfum sem gerðar eru til málsmeðferðar vegna slíkra mála.

Því hefur verið haldið fram að umhverfisráðherra hafi brotið stjórnsýslulög með því að gefa ekki Norðuráli kost á gæta hagsmuna félagsins þegar úrskurður var felldur um Suðvesturlínu. Úrskurður ráðherra fjallaði um framkvæmd Landsnets vegna Suðvesturlínu og í málinu er það álitaefni hvort meta eigi umrædda framkvæmd með hugsanlegum virkjanakostum á svæðinu. Hins vegar var í máli þessu ekki til úrlausnar að meta umhverfisáhrif álversins í Helguvík með Suðvesturlínu. Í því ljósi taldi ráðuneytið Norðurál ekki vera aðila að málinu og því ekki skylt að veita fyrirtækinu andmælarétt, skv. 13. grein stjórnsýslulaga.

Varðandi þá fullyrðingu að kærufrestur hafi verið runninn út þegar kæra barst umhverfisráðuneytinu er rétt að taka fram að samkvæmt 27. grein stjórnsýslulaga telst kæra m.a. nægilega snemma fram komin ef hún berst  ráðuneytinu áður en fresturinn er liðinn.

Mynd: Raflínur og álver, ljósmynd: Árni Tryggvason.

Birt:
13. október 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Um lögmæti úrskurðar umhverfisráðherra um Suðvesturlínu“, Náttúran.is: 13. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/13// [Skoðað:2. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: