Vinnustaðakeppnin „Hjólað í vinnuna“ fer fram 7. til 23. maí næstkomandi, en þetta er í sjötta sinn sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) stendur fyrir keppninni.

Hafa landsmenn tekið þessu hvatningar- og átaksverkefni afar vel og hefur þátttakendum fjölgað um 1.275 prósent frá því keppnin var fyrst haldin árið 2003. Þá voru keppendur 533 talsins en 7.333 í fyrra. Hefur keppnisliðum fjölgað úr 71 í 913, eða um 1.186 prósent.

Árið 2007 hjóluðu þátttakendur 417.106 kílómetra, sem jafngildir 311 hringjum í kringum landið og hálfum hring betur, eða vel á ellefta hring í kringum jörðina. Með framtaki sínu má áætla að þátttakendur hafi sparað tæplega 46 þúsund lítra af bensíni, rúmlega áttatíu tonn af koltvísýringsútblæstri og brennt tólf milljón hitaeiningum.

Samstarfssamningur vegna átaksins Hjólað í vinnuna 2008 var í gær undirritaður af Ólafi Rafnssyni, forseta ÍSÍ og Rannveigu Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, en Alcan er aðalstyrktaraðili keppninnar í ár. Aðrir samstarfsaðilar ÍSÍ eru Lþðheilsustöð, Umhverfissvið Reykjavíkurborgar, Umferðarstofa, Rás 2, Eskill, Örninn, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn og Landssamtök hjólreiðamanna. Á síðunni www.isi.is má fylgjast með keppninni.

Birt:
28. apríl 2008
Höfundur:
ovd
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
ovd „Hafa sparað 46 þúsund lítra af bensíni“, Náttúran.is: 28. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/28/hafa-sparao-46-thusund-litra-af-bensini/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. ágúst 2008

Skilaboð: