Tilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur
Styrkur svifryks á höfuðborgarsvæðinu fer yfir heilsuverndarmörkin í dag, 4. júní. Hálftímagildið klukkan 12.30 í dag á mælistöð Reykjavíkurborgar við Grensásveg mældist 116 míkrógrömm á rúmmetra og í Fjölskyldu – og húsdýragarðinum var 86. Meðalgildið frá miðnætti við Grensásveg í hádeginu var 85 míkrógrömm á rúmmetra. Heilsuverndarmörk svifryks á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Svifryk berst sennilega að mestu leyti frá öskufallssvæðinu við Eyjafjallajökul. Ástæða er til að benda þeim á sem eru með viðkvæm öndunarfæri s.s. lungnasjúkdóma eða astma að forðast mikla útiveru í dag og ef til vill á morgun - en líkur eru á betri loftgæðum á sunnudaginn.
Suðaustlægar áttir eru ríkjandi og töluverður vindur er til staðar. Ekki er búist við úrkomu í kvöld. Draga mun úr vindstyrk á morgun, 5. júní, en áfram eru líkur á svifryksgildum yfir heilsuverndarmörkum á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar eru geta fylgst með fréttum og kynnt sér upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðum Almannavarna, www.almannavarnir.is og Landlæknis, www.landlaeknir.is, Umhverfisstofnunar, www.ust.is og á vefmæli Reykjavíkurborgar (neðst á heimasíðu www.reykjavik.is) sem sýnir styrk svifryks (PM10) hverju sinni).
Athugið:
1. Varðandi loftgæði í öðrum sveitafélögum er vísað á viðkomandi heilbrigðiseftirlit.
2. Mælistöð í Hafnarfirði www.vista.is.
3. Heilsuverndarmörk eru ekki hættumörk.
Frekari upplýsingar veitir:
Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi s. 693 9678
Kristín Lóa Ólafsdóttir s. 411 8875
Mynd: Myndin sýnir öskufok yfir Suðurlandi, Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Kortamynd frá Landmælingum Íslands og Landhelgisgæslunni.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Tilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur“, Náttúran.is: 4. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/04/tilkynning-fra-heilbrigdiseftirliti-reykjavikur/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.