Nýr forstjóri Landsvirkjunar
Stjórn Landsvirkjunar hefur ráðið Hörð Arnarson sem forstjóra Landsvirkjunar og hefur hann störf eigi síðar en 1. janúar 2010. Hörður er 46 ára gamall og lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1986 og doktorsprófi frá DTU í Kaupmannahöfn 1990. Hörður starfaði hjá Marel frá 1985 og þar af sem forstjóri fyrirtækisins í tíu ár frá 1999 til 2009. Frá því í maí síðastliðnum hefur Hörður gegnt starfi forstjóra Sjóvár og leitt endurskipulagningu félagsins en gert er ráð fyrir að því verkefni ljúki fyrir áramót. Hörður er kvæntur Guðnýju Hallgrímsdóttur sagnfræðingi og eiga þau þrjú börn.
Í tilefni af ráðningunni vill Hörður koma eftirfarandi á framfæri:
„Þetta er mjög spennandi starf en um leið heilmikil áskorun. Landsvirkjun er eitt af mikilvægari fyrirtækjum fyrir íslenskan þjóðarhag og miklu skiptir að rekstur þess sé stöðugur og skili eigendum sínum arði. Það er ljóst að erfiðleikar á fjármála¬mörkuðum hafa gert fyrirtækinu erfitt fyrir en undirliggjandi rekstur þess er traustur og því full ástæða til bjartsýni. Fyrirtækið hefur yfir að ráða einstakri þekkingu á sviði virkjana og orkumála. Það hefur mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi, ekki síst í því endurreisnarstarfi sem framundan er í atvinnulífinu.“
Birt:
Tilvitnun:
Landsvirkjun „Nýr forstjóri Landsvirkjunar“, Náttúran.is: 14. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/14/nyr-forstjori-landsvirkjunar/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.