Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Sjóvá standa fyrir málþingi um loftlagsbreytingar og áhrif þeirra 1. október næstkomandi kl. 8:30 til 10:30 í húsi Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1.

Á málþinginu munu tveir þekkir sérfræðingar, Rowan Douglas og dr. Ernst Rauch, flytja erindi. Einnig mun dr. Halldór Björnsson formaður vísindanefndar um loftlagsbreytingar fjalla um niðurstöður nefndarinnar um náttúruvá á Íslandi og Rögnvaldur S. Gíslason efnaverkfræðingur á Nýsköpunarmiðstöð mun fjalla um hugsanleg áhrif hlýnunar á byggingarefni og mannvirki. 

Umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir mun flytja ávarp.

Rowan Douglas er yfirmaður alþjóðagreiningardeildar Willis Re og formaður Willis Research Network, stærsta samstarfsnets háskóla og tryggingafélaga en það hefur það að markmiði að rannsaka og fjalla um náttúruvá og hlýnun jarðar. Douglas var nýlega tilnefndur af vísindamálaráðherra Breta, Ian Pearson, til setu í National Environment Research Council í Bretlandi. Tilnefningin undirstrikar að fræðasamfélagið og viðskiptaheimurinn eru í vaxandi mæli að vinna saman í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

Dr. Ernst Rauch er yfirmaður deildar um veðurfarslegar áhættur hjá Munich Re endurtryggingarfélaginu í Þýskalandi.
Allir velkomnir - skráning á frettir@nmi.is.

Myndin er tekin á Jökulsárlóni í lok júlí 2008. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
10. september 2008
Tilvitnun:
Nýsköpunarmiðstöð Íslands „Hve mikil hætta stafar af hlýnun jarðar? Hver verða áhrifin á Íslandi? “, Náttúran.is: 10. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/10/hve-mikil-haetta-stafar-af-hlynun-jaroar-hver-vero/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: