Útikennsla hefur skotið rótum í fjölmörgum grunn- og leikskólum í borginni og er nú fastur þáttur í skólastarfinu. Nemendur í langflestum leikskólum, þar sem lagt er stund á útinám, fara einu sinni í viku eða oftar í útikennslu. Þetta kemur fram í könnun Náttúruskóla Reykjavíkur á útikennslu í grunn- og leikskólum Reykjavíkurborgar.

Niðurstöður benda sterklega til þess að þeir leik- og grunnskólar sem tileinka sér útikennslun sinni henni vel eftir það og með markvissum hætti. Útikennslan er nú mikilvægur þáttur í námi nemenda á yngsta stigi og miðstigi grunnskólans. Hins vegar dregur verulega úr útikennslu þegar nemendur koma á unglingastig.

Um það bil 200 kennarar og leiðbeinendur hafa sótt námskeið Náttúruskólans um útikennslu á þessu ári. „Öll námskeið eru fullbókuð og hefur þeim fjölgað með hverju árinu,“ segir Helena Óladóttir verkefnisstjóri Náttúruskóla Reykjavíkur og að slíkum námskeiðum muni enn fjölga á næsta ári.

Könnunin var gerð í haust (2008) og liður í Grænum skrefum Reykjavíkur. Könnunin var send til allra grunn- og leikskóla borgarinnar í október, alls 39 grunnskóla og 80 leikskóla.  Svörun var mjög góð, 80% leikskóla svöruðu könnuninni og 77% grunnskóla.

Niðurstöðurnar munu nýtast til skipulagningar á starfi Náttúruskóla Reykjavíkur, sem starfræktur er á Umhverfis- og samgöngusviði, en helstu viðfangsefni hans er fræðsla um útikennslu, kennaranámskeið og ráðgjöf vegna innleiðingu útináms í skólanámskrá.

Frekari upplýsingar veitir Helena Óladóttir í síma: GSM 693 2948
Birt:
3. desember 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Æ fleiri skólar velja útikennslu“, Náttúran.is: 3. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/03/ae-fleiri-skolar-velja-utikennslu/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: