Í gær var tilkynnt um uppsetningu svokallaðrar „aflþynnuverksmiðju“ við Eyjafjörð. Í fréttum ljósvakamiðla var tilkynnt um áætlanir að verksmiðjunni sem um aðeins jákvæða og spennandi „umhverfisvæna“ verksmiðju væri að ræða. Ráðamenn ríkisstjórnar, sveitastjórnar Eyjafjarðarsveitar, eigendur og forsvarsmenn væntanlegrar aflþynnuverksmiðju voru allir í hátíðarskapi á Listasafninu á Akureyri. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra talar um að hér sé um sögulegan áfanga í iðnsögunni að ræða.
Tveir samningar voru undirritðair, annar við Landsvirkjun um kaup á orku fyrir verksmiðjuna og hinn síðari um lóð, aðstöðu og fjárfestingakjör.

Til að útskýra hvað aflþynnur eru þá er um ný yrði yfir álþynnur að ræða og þýðingu orðsins "capacitor". Með íslenska nafninu er ekki átt við afurðina sjálfa sem eru rafhúðaðar álþynnur notaðar í rafþéttaiðnaði heldur aflið sem þær koma til með að leiða í raftækjum sem þær enda í.

Að sögn Landsvirkjunar þarf ekki að virkja sérstaklega fyrir verksmiðjuna „að sinni“ þó að hún komi til með að nota um fimm sinnum meira rafmagn en allt Eyjafjarðarsvæðið þarf nú til alls heimilis- og fyrirtækjareksturs. Verksmiðjan á að skapa um 40-50 störf til að byrja með en smám saman aukast í 100 störf. Bæjarstjóri Akureyrar er hæstánægð með verksmiðjuna þar sem hún telst til hátækniiðnaðar. Bæjarfélagið hyggst taka virkan þátt með því að senda út starfsmenn til þjálfunar erlendis og koma upp sérstakri námsbraut á háskólastigi til að þjálfa starfsfólk.

Fyrirtækið, sem Íslendingar eru í samvinnu við er ítalskt og heitir Becromal. Fyrirtækið var að sjálfsögðu að leita eftir staðsetningu sem byði upp á ódýra orku. Þetta mun verða í fyrsta skipti sem að vinnsla úr áli sem hráefni mun fara fram hér á landi. Ekki er ólíklegt að álver á Bakka sé skilyrði fyrir hagkvæmni álþynnuverksmiðju í Eyjafirði. Þó var ekkert um það sagt í fréttum af verksmiðjunni, né rætt um umhverfisáhrif, né þær virkjanir sem í náinni framtíð þurfa að koma til til að anna gífurlegri orkþörf fyrirtækisins. En eins og orðið „ál“ eru orðið „virkjanir“ ekki vinsælt á Íslandi í dag og því sleippt að nota þau.

Sjá vef Becromal.

Birt:
16. ágúst 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Eru aflþynnur öðruvísi en álpappír?“, Náttúran.is: 16. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/17/eru-aflynnur-ruvsi-en-lpappr/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 17. ágúst 2007

Skilaboð: