Lífræn söfnun Gámaþjónustunnar
Gámaþjónustan hf býður upp á alhliða þjónustu við söfnun á lífrænum úrgangi en á síðasta ári opnaði Gámaþjónustan nýja jarðgerðastöð sem byggir á tækni sem hefur verið að ryðja sér til rúms erlendis og gengur úr á að jarðgera lífrænan úrgang í stórum lokuðum gámum (sjá frétt). Ráðgjafar Gámaþjónustunnar heimsækja viðskiptavini og ráðleggja þeim um ílátastærðir innan og utan húss og tíðni losana.
Til þess að auðvelda söfnunina og jarðgerðina býður Gámaþjónustan einnig sérstaka poka úr maís við söfnunina í stað venjulegra plast- eða bréfpoka. Þessir pokar eru umhverfisvænir og brotna niður í jarðgerðarferlinu ásamt innihaldinu.
Hvað fer í tunnuna?
Allur lífrænn úrgangur getur farið í þessa söfnun svo sem ávextir og ávaxtahýði, grænmeti og grænmetishýði, egg, eggjaskurn, eldaðir kjöt- og fiskafgangar, mjöl, hrísgrjón og pasta, gömul brauð og kökur, mjólkurafurðir og kaffikorgur. Þá mega notaðir tepokar og gömul blóm einnig fara í jarðgerðartunnuna.
Hvað verður um afurðina?
Það sem Gámaþjónustan safnar af lífrænum úrgangi fer í nýju jarðgerðarstöðina að Berghellu 1 í Hafnarfirði. Eftir 6–8 vikna ferli er afurðin tilbúin, molta eða jarðvegsbætir með mjög háu áburðargildi og er tilvalin til nota við uppgræðslu. Þess er víða þörf.
Hver er ávinningurinn?
Fyrir utan notagildi afurðarinnar sem áburðar þá sparast urðunargjöld en mesti ávinningurinn er framlag hvers og eins til aukinnar endurnýtingar lífrænna efna. Er þá ótalið sá ávinningur sem fyrirtækið nýtur vegna bættrar ímyndar.
Birt:
Tilvitnun:
Gámaþjónustan „Lífræn söfnun Gámaþjónustunnar“, Náttúran.is: 7. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/07/lifraen-sofnun-gamathjonustunnar/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.