Landsnet efnir til samkeppni um hönnun háspennumastra
Í gær birtist í Morgunblaðinu grein þar sem Landsnet kemur á framfæri að fyrirtækið hyggist gangast fyrir samkeppni um hönnun háspennumastra. Eins og kunngt er þráast Sandgerðisbær og Grindavík við að leyfa lagningu þrefaldrar háspennumastralínu í gegnum lönd þeirra til fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Landsnet hefur átt undir högg að sækja varðandi línulagnir ofanjarðar undanfarin misseri. Umræðan komst á skrið í aðdraganda „deiluskipulags“-kosninga um stækkun álverisins í Hafnarfirði. Landsnet hefur ætíð haldið því fram að lagning jarðstrengja sé um tíu sinnum dýrari en lagning háspennumastra ofanjarðar en hefur þá alltaf að sjálfsögðu reiknað með að landið sem fyrir mastrarununum verða séu verðlaus og ekki kostnaðarliður í sjálfu sér.
Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar hefur verið óragur við að benda á að Reykjanesskaginn sé framtíðavettvangur fyrir útiveru og hugsanlega fyrir Eldfjallagarð sem að samtökin hafa kynnt ítarlega á síðastliðnu ári. Nú síðast sendi Bergur yfirlýsingu frá samtökunum þar sem að dregið er í efa að álver í Helguvík geti lengur verið inni í myndinn því Þórður Guðmundsson hafi sjálfur gefið þær yfirlýsingar (áður en sveitarfélögin tvö á Reykjanesinu höfnuðu línunum) að ekki væri hægt að reka arðbært álver ef setja þyrfti línur í jörð. Kostnaðurinn yrði einfaldlega of mikill.
Sem andsvar við þessu virðist Landsnet nú vera að sýna lit með því að efna til samkeppni um hönnun háspennumastra og dregur fram ljóta mynd af umróti sem að línur í jörð fela í sér. Sjá nána í greininni „Efnt til samkeppni um útlit hálspennulína“ í Morgunblaðinu í gær.
Myndirnar eru af auglýsingu Landsnets sem birtist i Kríunni í dag. Efri t.h. er óbreytt en sú neðri t.v. höfum við afmáð öll vegsummerki línulagna ofanjarðar. Kannski útkoma hönnunarsamkeppninnar verði þetta góð?
Sjá Kríuna, blað Landverndar sem kom út sem kálfur með Morgunblaðinu í dag.
Myndvinnsla: Guðrún Tryggavdóttir.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Landsnet efnir til samkeppni um hönnun háspennumastra“, Náttúran.is: 30. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/30/landsnet-efnir-til-samkeppni-um-hnnun-hsspennumast/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.