Umhverfisráðherra vill að tillit verði tekið til landfræðilegrar sérstöðu Íslands
Í bréfinu segir að íslensk stjórnvöld styðji aðgerðir Evrópusambandsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda almennt en að slíkar aðgerðir þurfi að vera sanngjarnar og taka tillit til sérstakra aðstæðna. Þá fagni þau ákvörðun Evrópuþingsins um að við útfærslu kerfisins verði tillit tekið til flugs til og frá jaðarsvæðum. Umhverfisráðherra óskar eftir því í bréfi sínu að ráðherraráðið útfæri þessa ákvörðun betur til að tryggt sé að tillit verði tekið til sérstakra aðstæðna á Íslandi.
Íslensk stjórnvöld túlka tillögu Evrópuþingsins svo að Ísland falli þar undir í ljósi þess að Íslendingar þurfi að reiða sig í meira mæli á flugsamgöngur en flestar aðrar þjóðir. Flugsamgöngur eru enda eini gerlegi samgöngumátinn fyrir farþegaflutninga til og frá landinu. Umhverfisráðherra leggur áherslu á að áhrif þess að fella flugsamgöngur undir viðskiptakerfi með losunarheimildir verði hlutfallslega mun meiri hér á landi en á öðrum svæðum Evrópska efnahagssvæðisins.
Með því að fella flugsamgöngur undir viðskiptakerfi með losunarheimildir vill Evrópusambandið hvetja farþega sem ferðast innan Evrópu til að nota í auknum mæli aðra vistvænni samgöngukosti, t.d. lestir.
Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, mun sitja samráðsfund Norrænna umhverfisráðherra fyrir hönd umhverfisráðherra í Brussel á morgun þar sem málið verður tekið til umræðu. Blaða- og fréttamenn geta náð tali af Magnúsi að fundi loknum um klukkan 9:00 á morgun í síma 8964190. Einnig sitja fundinn fyrir Íslands hönd þau Ingimar Sigurðsson, fulltrúi umhverfisráðuneytisins í Brussel, og Ragnheiður Elva Þorsteinsdóttir sendiráðunautur. Ráðherraráð Evrópusambandsins kemur saman til fundar síðar um daginn.
Grafík: Flugvél yfir Íslandi, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Umhverfisráðherra vill að tillit verði tekið til landfræðilegrar sérstöðu Íslands“, Náttúran.is: 20. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/20/umhverfisraoherra-vill-ao-tillit-veroi-tekio-til-l/ [Skoðað:2. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. desember 2007