Í Morgunblaðinu birtist í dag forsíðugrein þess efnis að bandaríska verslunarkeðjan Whole Foods Market (WFM) hafi ákveðið að hætta markaðssetningu á íslenskum vörum undir vörumerkinu „Ísland“ í verslunum sínum sökum ákvörðunar stjórnvalda um að hefja að nýju hvalveiðar í atvinnuskyni.
Verslunarkeðjan mun þó áfram bjóða upp á íslenskar vörur frá einstökum framleiðendum. Ákvörðunina sendi Kenneth Meyer, aðalforstjóri austurstrandardeildar, Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra bréfleiðis 22. 11. sl. Whole Foods Market sérhæfir sig í sölu lífrænnar vöru og gefur sig út fyrir að styðja við sjálfbæra framleiðslu og brjóti hvalveiðar Íslendinga (Hvals 9) því í bága við stefnu fyrirtækisins, enda hvalveiðarnar stundaðar í trássi við alþjóðasamþykktir og hafi engin yfirlýsing verið gefin út að hálfu íslenskra yfirvalda um hvort halda eigi hvalveiðunum áfram eða ekki.

 

Ímynd Íslands sem umhverfisvæns lands hafi því beðið skaða í augum almennings og þar af leiðandi er íslensk framleiðsla ekki lengur „prómóteruð“ sem slík í hinum 180 verslununum WFM í Bandaríkjunum.
Hvað segir maður aftur við óvita, í þessu tilviki sjávarútvegsráðherra, sem skemmir fyrir öðrum til að sýnast maður meiri hjá vinum sínum? Haltu áfram, eða skamm... og biður óvitann um að biðja þann sem hann var að eyðileggja eitthvað fyrir, afsökunar og hætta strax. Svo má líka hreinlega fara fram á að hann taki afleiðingum gjörða þinna og fari í skammarkrókinn. Heimurinn er stór og flókinn, við höfum ekki efni á fleiri svona heimóttarákvörðunum!
-
Sjá vef Whole Foods Market.

Birt:
7. desember 2006
Uppruni:
Árvakur hf
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvalveiðarnar farnar að skemma fyrir áralangri vinnu við markaðssetningu á „íslenskum“ vörum“, Náttúran.is: 7. desember 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/hvalveidar_skemmafyrir/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 16. maí 2007

Skilaboð: