Rammaáætlun „um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði“ er væntanleg strax eftir áramót og sætir tíðindum í langvinnum deilum um virkjanir og náttúruvernd. Grunnhugsunin í þessum áfanga var að sameinast um tiltekin verndarsvæði en gefa jafnframt almennt leyfi til framkvæmda á öðrum náttúrusvæðum. Enn önnur svæði verða svo áfram í biðstöðu, en þá ekki hreyfð á meðan. Þær tillögur sem skapast um þetta fara frá vinnuhópnum til ríkisstjórnarinnar og á alþingi að lokum að fjalla um þær og festa meðferð þeirra í lög, sem ekki var um fyrri tilraun til slíkrar rammaáætlunar.

Á fundi Græna netsins á laugardaginn 12. desember segir Svanfríður Jónasdóttir, formaður verkefnisstjórnar og bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, frá vinnunni við þennan áfanga Rammaáætlunar og lýsir því sem nú  liggur fyrir, og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, formaður faghóps um náttúrufar og minjar og náttúrufræðiprófessor, segir frá vinnu og áföngum í því starfi.

Fundurinn hefst klukkan 11:00 á Sólon í Bankastræti, Reykjavík. Fundarstjóri verður Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi.

Í Rammaáætluninni einsog hún er nú skipulögð felst helsta framlag Samfylkingarinnar og síðustu tveggja ríkisstjórna til sátta um landnýtingu á náttúrusvæðum, og „Rammaáætlun um náttúrusvæði“ var eitt af kjarnaatriðum stefnunnar um Fagra Ísland fyrir kosningarnar 2007.

Birt:
8. desember 2009
Höfundur:
Græna netið
Tilvitnun:
Græna netið „Hvað verður úr Rammaáætlun?“, Náttúran.is: 8. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/08/hvao-verour-ur-rammaaaetlun/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: