Náttúrutengsl og upplifanir ferðamannsins
Dr. Gunný óra Ólafsdóttir heldur fyrirlestur sem ber yfirskriftina „Náttúrutengsl og upplifanir ferðamanna á Íslandi. Fjögur tengslamynstur vellíðunar.“ í Reykjavíkurakademínunni, Hringbraut 121,þ. 11. febrúar 2009 kl. 12:05.
Erindið kynnir niðurstöður doktorsverkefnis sem rannsakaði heilunaráhrif ferðalaga um náttúruleg svæði. Breskir ferðamenn í tveimur skipulögðum hópferðum til Íslands voru til rannsóknar. Kannað var ferlið frá draumi ferðamannsins um að fara í ferðina, ferðalagið sjálft og aftur heim í hið venjubundna líf. Greint var aðdráttarafl náttúru Íslands og ferðalaganna. Tengslakenningum fyrirbærafræðinnar var beitt til að rannsaka hvernig ólíkir ferðamátar – ganga og akstur – leiddu ferðamenn og náttúruna saman á síbreytilegan hátt og hvernig tengslin höfðu áhrif á hvernig fólk skynjaði náttúruna, sjálft sig og líðan sína. Kannað var hvernig orðræða, ímyndir, óskrifaðar reglur, líkami, tækni, grunngerð, ferðaþjónustuaðilar sem skipulögðu og stjórnuðu ferðunum, sem og „hegðun“ náttúrulegra fyrirbæra, tengdust og höfðu einstaklingsbundin áhrif á samband manns og náttúru.
Niðurstöður sýna að skynjuð líðan er ætíð einstaklingsbundin og tengd ákveðnum stað og tíma. Endurnýjunaráhrifin byggðust á því að geta séð sjálfan sig og umhverfislegar aðstæður sínar í jákvæðu ljósi, hafa frelsi til að hreyfa sig og tjá tilfinningar sínar óheft með náttúrunni, og dýpstu hughrifin fengust þegar athyglin færðist yfir á náttúruna og hugarfarið endurspeglaði heildarhyggju. Það fundust merki um djúp tengsl á milli siðfræðilegs eðlis hugarfarsins og því að blómstra sem manneskjur.
Allir velkomnir!
Nánar um Gunný óru:
Dr. Gunný óra Ólafsdóttir er fædd og uppalin í Keflavík. Hún lauk stúdentsprófi frá hagfræðideild Verzlunarskóla Íslands 1983 og tók leiðsögumannapróf frá Leiðsöguskóla Íslands 1998. Árið eftir hóf hún nám í landfræði með ferðamálafræði sem aukagrein við Háskóla Íslands og lauk BS-gráðu í því fagi árið 2003. Í kjölfarið hóf hún doktorsnám í landfræði við School of Geographical Sciences, Bristol Háskóla þaðan sem hún útskrifaðist með doktorsgráðu í febrúar 2008. Gunný óra hefur víðtæka starfsreynslu bæði í íslenskri ferðaþjónustu og í eigin verslunarrekstri. Í Háskóla Íslands aðstoðaði hún við rannsóknina Þolmörk ferðamennsku á Íslandi öll árin með námi. Hún hefur verið sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni síðan 2008 og hefur unnið við kennslu, skrif og nýsköpun í samvinnu við aðra fræðimenn og listamenn.
Myndi er tekin við Þjórsá. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúrutengsl og upplifanir ferðamannsins“, Náttúran.is: 11. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/11/natturutengsl-og-upplifanir-feroamannsins/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.