Reykjavíkurborg áformar aukningu hjólavega um borgina á næstu þremur árum
Umhverfis- og samgönguráð samþykkti í dag, 25. maí, drög að aðgerðaáætlun til næstu þriggja ára 2011-2014 um hjólaleiðir í borginni. Þar kemur fram að tíu kílómetrum verður árlega bætt við núverandi hjólaleiðir í Reykjavík, að hraðbraut fyrir hjól verði lögð milli Laugardals og miðborgar og brú gerð fyrir hjólandi og gangandi yfir Elliðaárósa yfir í Grafarvog.
Þetta er langumfangsmesta uppbygging á hjólastígakerfinu sem farið hefur verið í Reykjavík. „Samstaðan í þessum málaflokki í umhverfis og samgönguráði hefur verið til fyrirmyndar. Allir flokkar samþykktu hjólaáætlunina Hjólaborgin Reykjavík í borgarráði í febrúar síðastliðnum, og þessi þriggja ára áætlun byggir á henni. Þetta er mikill gleðidagur fyrir alla hjólandi Reykvíkinga, og raunar hina líka því hver einasti hjólreiðamaður er í raun að spara borginni og sjálfum sér pening,“ segir Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs og að mikil tímamót felist í þessari samþykkt. Taka má sem dæmi um áhrif þess að fleiri hjóli í Reykjavík að ef 10% ökuferða færast yfir á hjól gætu sparast 50 þúsund eknir km á götum borgarinnar dag hvern.
Tengingar verða stórbættar fyrir vistvænar samgöngur í borginni með þessu móti. En nú eru um bil tíu km af sérstökum hjólaleiðum í borginni. Reykjavikurborg hefur það nú að leiðarljósi að huga að hjólreiðum við gerð allra umferðarmannvirkja og samþykkti fyrstu hjólreiðaáætlun sína í janúar síðastliðnum þar sem staðlar um lausnir á hjólaleiðum voru settir fram ásamt kerfi hjólaleiða fyrir borgina þar sem þessari leiðir voru fyrst lagðar fram.
Árið 2010 er þegar á dagskrá að klára tvöföldun Fossvogsstígs, gera hjólaleið á Hofsvallagötu og fjölga hjólavísum.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Reykjavíkurborg áformar aukningu hjólavega um borgina á næstu þremur árum“, Náttúran.is: 25. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/25/reykjavikurborg-aformar-aukningu-hjolavega-um-borg/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.