Reglugerð nr. 851/2002 um grænt bókhald

I. KAFLI
Almenn ákvæði

1. gr.
Markmið
Markmið reglugerðar þessarar er að veita almenningi, félagasamtökum og stjórnvöldum upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í starfsemi sem haft getur í för með sér mengun. Ennfremur er það markmið reglugerðarinnar að hvetja rekstraraðila til að fylgjast vel með helstu umhverfisþáttum starfseminnar og leitast við að tryggja að þróun starfseminnar sé jákvæð fyrir umhverfið.

2. gr.
Gildissvið
Reglugerð þessi gildir um færslu græns bókhalds og skýrslur um grænt bókhald fyrir starfsleyfisskylda starfsemi sem tilgreind er á lista í viðauka með reglugerð þessari.

3. gr.
Skilgreiningar
Í reglugerð þessari merkir:
Grænt bókhald: efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, aðallega í formi tölulegra upplýsinga

Skýrsla um grænt bókhald: niðurstöður græns bókhalds fyrir hvert
bókhaldstímabil þess.
Útgefandi starfsleyfis: heilbrigðisnefnd eða Umhverfisstofnun.
Hráefni: allt efni, bæði lífrænt og ólífrænt, sem notað er við framleiðslu
varnings eða frekari vinnslu á afurðum úr náttúrunni.
Úrgangur: efni hvort sem það er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og er
losað frá starfsleyfisskyldu fyrirtæki.
Spilliefni: úrgangur sem merktur er með stjörnu * í I. viðauka með reglugerð
um skrá yfir spilliefni og annan úrgang og einnig annar úrgangur sem hefur einn eða
fleiri eiginleika sem tilteknir eru í III. viðauka með tilvitnaðri reglugerð.
Viðtaki: svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.
Viðurkennd umhverfisstjórnunarkerfi: vottuð umhverfismálakerfi ESB
(EMAS) eða ISO 14001

4. gr.
Bókhaldsaðilar
Færa skal grænt bókhald fyrir atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfisamkvæmt 5. gr.a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum og nánar greinir í fylgiskjali með reglugerð þessari.
Þeir aðilar sem tilgreindir eru á fylgiskjali með reglugerð þessari, en reka atvinnustarfsemi sem er minni að umfangi en þar greinir er heimilt að skila útgefanda starfsleyfis skýrslu um grænt bókhald og óska eftir birtingu þess. Um slíkar skýrslur fer samkvæmt reglugerð þessari.

5.gr.
Framkvæmd
Umhverfisstofnun annast framkvæmd reglugerðar þessarar. Umhverfisstofnun annast gerð skriflegra leiðbeininga um færslu græns bókhalds í samvinnu við hagsmunaaðila og skal veita upplýsingar til almennings og hagsmunaaðila um græn bókhald ef óskað er eftir. Ennfremur annast Umhverfisstofnun birtingu skýrslna um grænt bókhald. Birting skýrslna um grænt bókhald felur ekki í sér viðurkenningu Umhverfisstofnunar á þeim upplýsingum sem þar koma fram.
Útgefandi starfsleyfis skal kanna hvort skýrslan um grænt bókhald fullnægi
kröfum. sem fram koma í 6. - 8. gr.

II. KAFLI

Skýrslur um grænt bókhald

6. gr.
Almennar upplýsingar
Í skýrslu um grænt bókhald skal tilgreina:
1. nafn og heimilisfang starfsleyfishafans, útgefanda starfsleyfis, ásamt því hvaða aðili hafi eftirlit með starfsleyfi fyrirtækisins,
2. númer fyrirtækjaflokks skv. fylgiskjali með reglugerð þessari,
3. stjórn fyrirtækisins,
4. tímabil sem græna bókhaldið nær yfir, ef það er annað en reikningsárið,
5. hvort fyrirtækið hafi sótt um undaný águ frá færslu græns bókhalds, sbr. 14. gr.,
6. gildistíma starfsleyfisins.
Í grænu bókhaldi skulu koma fram upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi. Skal þannig gerð grein fyrir helstu áhrifaþáttum í umhverfismálum starfseminnar. Einnig skal gera stuttlega grein fyrir því með hvaða hætti þær upplýsingar sem skráðar eru skv. 7. gr. reglugerðar þessarar eru valdar til útskýringar á því hvernig umhverfismálum er háttað í starfseminni.

7. gr.
Hráefna- og auðlindanotkun
Í skýrslu um grænt bókhald skulu koma fram upplýsingar um meginnotkun fyrirtækisins á hráefnum, orku, jarðhitavatni og köldu vatni á bókhaldstímabilinu, ásamt helstu tegundum og magni efna sem valda mengun:
1. í framleiðslu- eða vinnsluferli,
2. sem losað er út í andrúmsloft, vatn, sjó og jarðveg,
3. í framleiðsluvörunni,
4. í úrgangi frá framleiðslunni þ.m.t. spilliefni,
5. sem eiturefni og hættuleg efni, skv. lögum um eiturefni og hættuleg efni.
Ekki er skylt að tilgreina aðrar mæliniðurstöður varðandi mengandi efni en
kveðið er á um í gildandi starfsleyfi.
Orku, vatn, hráefni og úrgang og aðra losun skal gefa upp í eftirfarandi
mælieiningum:
Raforka kwst
Jarðefnaeldsneyti lítrar/tonn
Gas rúmmetrar
Jarðhitavatn rúmmetrar
Kalt vatn rúmmetrar
Hráefni massi
Losun efna í viðtaka massi
Svifryk massi
Frárennsli lítrar/tonn
Spilliefni/úrgangur massi/rúmmál
Einnig er heimilt að gefa efnanotkun og losun upp sem magn á hverja framleidda einingu.
Upplýsingar þær sem fyrir koma í 3. mgr. skal birta sem magntölur, þó getur fyrirtækið, ef það telst nauðsynlegt vegna framleiðsluleyndar, birt tölurnar sem hlutfallstölur miðað við umsetningu yfir árið, miðað við grunnárið sem er táknað með tölunni 100.
Velji fyrirtækið að birta upplýsingarnar sem vísitölur sbr. 5. mgr. skal grunnárið vera undangengið ár þ.e. árið á undan fyrsta græna bókhaldsárinu eða fyrsta græna bókhaldsárið.
Setja skal upplýsingar fram á almennu máli og með því auðvelda þeim aðilum sem ekki eru kunnugir rekstrinum skilning á skýrslunni.

8. gr.

Yfirlýsing fyrirtækisins
Starfleyfishafi ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu um grænt bókhald og stjórn fyrirtækisins skal staðfesta þær upplýsingar sem nefndar eru í 6.- 7. gr.
Ef veruleg frávik hafa orðið í rekstri viðkomandi bókhaldsaðila sem varða umhverfismál hans svo sem aukin framleiðsla, breyting á samsetningu framleiðslu, bilun í tæknibúnaði, mengunaróhapp, vélarbilun svo og ef breytt hefur verið um tæknibúnað skal gera grein fyrir því.

9. gr.
Aðgangur að upplýsingum
Upplýsingar sem stjórn fyrirtækisins telur framleiðsluleyndarmál er ekki skylt að birta í skýrslu um grænt bókhald, enda séu slík atriði tilgreind í skýrslunni og ekki gerðar athugasemdir við það að hálfu útgefanda starfsleyfis. Fallist útgefandi starfsleyfis ekki á framsetningu starfsleyfishafa með vísan til þessa ákvæðis skal starfsleyfishafa tilkynnt þar um. Slíkum ágreiningi má skjóta til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

10. gr.
Endurskoðun
Skýrsla um grænt bókhald skal endurskoðuð á sambærilegan hátt og fjárhagsbókhald fyrirtækja. Endurskoðun græns bókhalds skal framkvæmd af aðila sem hefur yfir að ráða
þekkingu á sviði framleiðslu- og umhverfismála viðkomandi fyrirtækis þ.m.t. mikilvægum umhverfisþáttum í starfsseminni. Hann skal ennfremur vera óháður og hlutlaus. Endurskoðun skýrslu um grænt bókhald fellst í staðfestingu á því að tölur sem gefnar eru upp séu réttar og í samræmi við fjárhagsbókhald fyrirtækisins og þær tölur sem sendar eru þeim aðila sem hefur eftirlit með starfsleyfi vegna mengunarmælinga. Endurskoðandi skýrslu um grænt bókhald skal gera grein fyrir endurskoðun skýrslunnar og staðfesta endurskoðunina með undirritun sinni.

11. gr.
Skil á skýrslum
Fyrirtæki sem færa eiga grænt bókhald skulu fyrir 1. maí ár hvert senda útgefanda starfsleyfis skýrslu um grænt bókhald fyrir viðkomandi bókhaldsár. Sé heilbrigðisnefnd útgefandi starfsleyfis skal hún senda Umhverfisstofnun viðkomandi skýrslu um grænt bókhald að lokinni könnun á kröfum sbr. 6.-8. gr. í reglugerð þessari. Heilbrigðisnefnd skal senda Umhverfisstofnun skýrslu um grænt bókhald innan þriggja vikna til birtingar.

12.gr.
Birting
Umhverfisstofnun skal birta skýrslu um grænt bókhald innan fjögurra vikna frá móttöku skýrslunnar.

13. gr.
Undanþágur
Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og Umhverfisstofnunar, veitt undanþágu frá skyldu til færslu græns bókhald. Í umsókn um undanþágu frá skyldu um færslu græns bókhalds skal tilgreina ástæður þess að starfsleyfishafi óskar undanþágu og áætlun um hvenær viðkomandi hyggst hefja færslu græns bókhalds. Fyrirtæki sem eiga að færa skýrslu um grænt bókhald geta samið við Umhverfisstofnun um að taka upp viðurkennt umhverfisstjórnunarkerfi og fengið frest til að taka upp grænt bókhald þó eigi lengur en til 1. janúar 2006. Í samkomulaginu verði sett fram tímasett áætlun um áfanga í innleiðingu vottaðs umhverfistjórnunarkerfis og skal stofnunin upplýst reglulega um framgang áætlunarinnar. Fyrirtækið skal upplýsa Umhverfisstofnun um að það muni hefja vinnu við grænt bókhald og senda skýrslu fyrir fyrsta reikningsárið þegar eftir liðinn frest, skv. reglugerð þessari og tilkynna ráðherra hvaða reikningsár um verður að ræða, skv. 2. mgr. Fyrirtæki sem fresta að skila inn skýrslu fyrir fleiri en eitt grænt bókhaldsár, verða að senda eftir hvert liðið bókhaldsár yfirlýsingu, sem lýsir stöðunni varðandi innleiðingu vottaðs umhverfisstjórnunarkerfis skv. ISO 14001 eða EMAS. Umsókn um frestun á færslu græns bókhalds skal hafa borist umhverfisráðherra fyrir 1. september viðkomandi bókhaldsárs.


III. KAFLI

Ýmis ákvæði

14. gr.
Ný starfsleyfi
Heilbrigðisnefndir skulu tilkynna Umhverfisstofnun um útgáfu nýrra starfsleyfa til fyrirtækja og reksturs sem heyrir undir reglugerð þessa í síðasta lagi 4 vikum eftir útgáfu þeirra.

15. gr.
Gjaldtaka
Umhverfisstofnun er heimilt að taka gjald fyrir birtingu skýrslna um grænt bókhald fyrirtækja samkvæmt gjaldskrá, sbr. 21. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum. Slíkt gjald skal eigi vera hærra en sem nemur kostnaði við birtingu skýrslunnar. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að taka gjald sem samsvarar kostnaði við athugun á því hvort skýrsla um grænt bókhald fullnægir formkröfum 6-8. gr. reglugerðar þessarar samkvæmt gjaldskrá sbr. 21. og 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

16. gr.
Þvingunarúrræði
Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari, getur útgefandi starfsleyfis veitt áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf .
Ef aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur útgefandi starfsleyfis ákveðið honum dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.

17. gr.
Úrskurðir
Um málsmeðferð og úrskurði gilda ákvæði VII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

18. gr.
Viðurlög
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum.Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot. Mál út af brotum gegn lögum þessum, reglugerðum eða samþykktum sveitarfélaga skulu sæta meðferð opinberra mála.

19. gr.
Gildistaka
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 17. tl. 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga
hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. sömu laga, tekur gildi 1.
janúar 2003.
Ákvæði til bráðabirgða
Fyrsta bókhaldsár græns bókhalds er árið 2003 og fyrstu skýrsluskil eru 1. júni 2004.

Fylgiskjal
Starfsemi sem færa skal grænt bókhald.
1. Orkuiðnaður.
1.1. Brennslustöðvar með meiri nafnhitaafköst en 50 MW.
1.2. Jarðolíu- og gashreinsunarstöðvar.
1.3. Koksverksmiðjur.
1.4. Iðjuver þar sem kolagösun og þétting fer fram.

2. Framleiðsla og vinnsla málma.
2.1. Álframleiðsla.
2.2. Kísiljárnframleiðsla.
2.3. Kísilmálmframleiðsla.
2.4. Kísil- og kísilgúrframleiðsla.
2.5. Járn- og stálframleiðsla.
2.6. Sinkframleiðsla.
2.7. Framleiðsla á magnesíum og efnasamböndum sem innihalda magnesíum.

3. Jarðefnaiðnaður.
3.1. Sements- og kalkframleiðsla.
3.2. Stöðvar þar sem vinnsla asbests og framleiðsla vara sem innihalda asbest fer fram.
3.3. Glerullarframleiðsla. Stöðvar þar sem framleiðsla glers, einnig glertrefja, fer fram og
sem geta brætt meira en 20 tonn á dag.
3.4. Steinullarframleiðsla. Stöðvar þar sem bræðsla jarðefna, einnig steinullartrefja, fer
fram og sem geta brætt meira en 20 tonn á dag.
3.5. Stöðvar þar sem framleiðsla leirvara fer fram með brennslu, einkum þakflísa,
múrsteina, eldfastra múrsteina, flísa, leirmuna eða postulíns, sem geta framleitt meira
en 75 tonn á dag og/eða rúmtak ofns er meira en 4 m3 og setþéttleiki hans er meiri en
300 kg/m3.

4. Efnaiðnaður.
Með framleiðslu í starfsemi sem fellur undir þennan þátt er átt við mikla framleiðslu með efnafræðilegri vinnslu efna eða flokka efna sem er getið í liðum 4.1–4.6.
4.1. Efnaverksmiðjur sem framleiða lífræn grunnefni, svo sem:
a) einföld vetniskolefni, b) vetniskolefni með súrefni, svo sem alkóhól, aldehýð, ketón, karboxýlsýrur, estera, asetöt, etera, peroxíð, epoxýresín, c) brennisteinsvetniskolefni,
d) köfnunarefnisvetniskolefni, svo sem amín, amíð, nítursambönd, nítrósambönd eða
nítratsambönd, nítríl, sýanöt, ísósýanöt, e) vetniskolefni með fosfór, f) halógenvetniskolefni, g) lífræn málmsambönd, h) plastefni, i) gervigúmmí, j) litarefni, k) yfirborðsvirk efni.
4.2. Efnaverksmiðjur sem framleiða ólífræn grunnefni, svo sem:
a) gös, svo sem ammóníak, klór eða vetnisklóríð, flúor eða vetnisflúoríð, koloxíð,
brennisteinssambönd, köfnunarefnisoxíð, vetni, brennisteinsdíoxíð, karbónýlklóríð,
b) sýrur, svo sem krómsýru, flúorsýru, fosfórsýru, saltpéturssýru, saltsýru,
brennisteinssýru, óleum, brennisteinstvísýrling,
c) basa, svo sem ammóníumhýdroxíð, kalíumhýdroxíð, natríumhýdroxíð,
d) sölt, svo sem ammóníumklóríð, kalíumklórat, kalíumkarbónat, natríumkarbónat,
perbórat, silfurnítrat,
e) málmleysingja, málmoxíð eða önnur ólífræn sambönd, svo sem kalsíumkarbíð, kísil, kísilkarbíð.
4.3. Áburðarframleiðsla. Efnaverksmiðjur sem framleiða áburð sem inniheldur fosfór,
köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur).
4.4. Efnaverksmiðjur sem framleiða grunnvörur fyrir plöntuheilbrigði og sæfiefni.
4.5. Stöðvar þar sem notaðar eru efnafræðilegar og líffræðilegar aðferðir við framleiðslu
grunnlyfjavara.
4.6. Efnaverksmiðjur sem framleiða sprengiefni.
4.7. Kítín- og kítosanframleiðsla.
4.8. Lím- og málningarvöruframleiðsla.

5. Úrgangsstarfsemi.
5.1. Stöðvar fyrir meðhöndlun, förgun eða endurnýtingu spilliefna.
5.2. Stöðvar fyrir sorpbrennslu sem geta afkastað meira en 3 tonnum á klukkustund.
5.3. Stöðvar fyrir förgun úrgangs annars en spilliefna sem geta afkastað meira en 50
tonnum á dag.
5.4. Urðunarstaðir sem taka við meira en 10 tonnum á dag eða geta afkastað meira í heild
en 25.000 tonnum af óvirkum úrgangi.

6. Önnur starfsemi.
6.1. Pappírs- og trjákvoðuframleiðsla. Iðjuver sem framleiða:
a) deig úr viði eða önnur trefjaefni, b) pappír og pappa og geta framleitt meira en 20 tonn á dag.
6.2. Stöðvar þar sem fram fer formeðferð eða litun trefja eða textílefna og vinnslugeta er
meiri en 10 tonn á dag.
6.3. Sútunarverksmiðjur. Stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum og
vinnslugeta er meiri en 12 tonn af fullunninni vöru á dag.
6.4. Matvælavinnsla:
a) Sláturhús sem geta framleitt meira en 50 tonn af skrokkum á dag. b) Meðferð og vinnsla fyrir matvælaframleiðslu úr:
– hráefnum af dýrum, öðrum en mjólk, þar sem hægt er að framleiða meira en 75 tonn af fullunninni vöru á dag,
– hráefnum af jurtum þar sem hægt er að framleiða að meðaltali meira en 300 tonn af fullunninni vöru á dag.
c) Meðferð og vinnsla mjólkur, tekið er á móti meira en 200 tonnum af mjólk á dag
miðað við meðaltal á ársgrundvelli.
6.5. Stöðvar þar sem förgun eða endurvinnsla skrokka og úrgangs af dýrum fer fram og
afkastageta er meiri en 10 tonn á dag.
6.6. Stöðvar þar sem þauleldi alifugla eða svína fer fram með fleiri en:
a) 40.000 stæði fyrir alifugla, b) 2.000 stæði fyrir alisvín yfir 30 kg eða c) 750 stæði fyrir gyltur.
6.7. Stöðvar þar sem fram fer yfirborðsmeðferð efna, hluta eða afurða með lífrænum
leysiefnum, einkum pressun, prentun, húðun, fituhreinsun, vatnsþétting, meðhöndlun
eða þakning með límvatni, málun, hreinsun eða gegndreyping og meira en 150 kg eru
notuð á klukkustund eða meira en 200 tonn á ári.
6.8. Stöðvar þar sem fram fer framleiðsla kolefna eða rafgrafíts með brennslu eða
umbreytingu í grafít.
6.9. Fiskimjölsverksmiðjur með meiri framleiðsluafköst en 400 tonn á sólarhring.
6.10. Eldi sjávar- og ferskvatnslífvera þar sem ársframleiðsla er meiri en 200 tonn og
fráveita til sjávar eða ársframleiðsla er meiri en 20 tonn og fráveita í ferskvatn.
6.11. Olíumalar- og malbikunarstöðvar með fasta staðsetningu.

Birt:
1. maí 2007
Höfundur:
Alþingi
Tilvitnun:
Alþingi „Reglugerð nr. 851/2002 um grænt bókhald“, Náttúran.is: 1. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/01/regluger-nr-8512002-um-grnt-bkhald/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. mars 2013

Skilaboð: