• 10 skilti með fræðslu um bann við akstri utan vega sett upp á leiðum inn á hálendið.
  • Afrakstur samráðshóps sem umhverfisráðherra skipaði til að efla fræðslu.
  • Áróðri dreift með bæklingum og stýrisspjöldum í bílaleigubílum.
  • Öflugt hálendiseftirlit í sumar.
  • Sérstakt átak á Reykjanesi og unnið að því að eyða óvissu um hvaða slóða megi aka á hálendinu.

Vegagerðin, tryggingafélög og bílaleigur undirrituðu í dag samstarfssamning um gerð og uppsetningu skilta með fræðslu gegn akstri utan vega sem sett verða upp á tíu helstu leiðum inn á hálendi Íslands. Samstarf þetta er árangur af vinnu samráðshóps um fræðslu gegn akstri utan vega sem umhverfisráðherra skipaði í upphafi árs. Hægt er nálgast frekari upplýsingar um skiltin á heimasíðu Vegarðarinnar á slóðinni: www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/2148.

Hópinn skipa fulltrúar helstu ríkisstofnana og hagsmunasamtaka sem tengjast málefninu. Samráðshópurinn hefur hist reglulega og unnið að áætlunum og verkefnum sem miða að því að draga úr akstri utan vega. Fyrr í sumar gáfu Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið út bækling á fjórum tungumálum sem var dreift meðal annars á bílaleigum og algengum ferðamannastöðum. Hálendiseftirlit, samstarf Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, lögreglu, Umhverfisstofnunar og Landhelgisgæslunnar fór af stað í sumar. Þá hefur Umhverfisstofnun búið til sérstök eyðublöð og leiðbeiningar fyrir t.d. landverði til að skrá og tilkynna akstur utan vega til lögreglu og Umhverfisstofnunar. Einnig hefur boðskap gegn akstri utan vega verið komið á framfæri með fræðsluefni (spjald á stýri bifreiða) sem fylgir flestum bílaleigubílum. Loks hefur upplýsingum um akstur utan vega verið komið á framfæri á vefsvæði Umhverfisstofnunar: umhverfisstofnun.is/Natturuvernd/offroad/.

Samráðshópurinn mun starfa áfram að fræðslu gegn akstri utan vega og hafa frumkvæði að fleiri verkefnum, ásamt því að fylgjast með og meta árangur þeirra verkefna sem eru þegar hafin. Umhverfisstofnun heldur utan um starf samráðshópsins en þátttakendur í hópnum eru: Umhverfisráðuneytið, Ferðaklúbburinn 4x4, Ferða og útvistarfélagið Slóðavinir, Forvarnarhúsið, Landgræðsla ríkisins, Landhelgisgæsla Íslands, Landvarðafélag Íslands, Landvernd, Ríkislögreglustjóri, Mótorhjóla og snjósleðaíþróttasamband Íslands, Ökukennarafélag Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök útivistarfélaga, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umhverfisstofnun, Umferðarstofa og Vegagerðin.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra álítur akstur utan vega vaxandi vandamál hér á landi, m.a. vegna mikillar fjölgunar torfærutækja undanfarin ár. Miklar skemmdir hafa verið unnar á náttúru landsins með akstri utan vega, t.d. á Reykjanesi, í Snæfelljökulsþjóðgarði og í Friðlandi að Fjallabaki. Hægt er að skoða myndir af skemmdum í náttúru Íslands af völdum aksturs utan vega á heimasíðu Umhverfisstofnunar: sites.google.com/a/ust.is/akstur-utan-vega/.

Í kjölfar vettvangsferðar í Reykjanesfólkvang í sumar skipaði umhverfisráðherra aðgerðateymi til að koma á átaki til að verja viðkvæma náttúru Reykjanesfólkvangs fyrir skemmdum af völdum aksturs utan vega. Yfirskrift átaksins er Á réttri leið á Reykjanesi og mun Umhverfisstofnun leiða starf teymisins. Aðgerðateymið á að efla og samræma störf ýmissa aðila en í teyminu sitja fulltrúar frá umhverfisráðuneytinu, Reykjanesfólkvangi, Grindavíkurbæ, Sveitarfélaginu Vogum, lögreglunni á Suðurnesjum, Umhverfisstofnun og Landgræðslunni. Teyminu er m.a. ætlað að koma á samráði við hagsmunafélög, lagfæra jarðvegsskemmdir eftir akstur utan vega og sjá um lokun slóða sem óheimilt er að aka. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segist vona að átakið reynist árangursríkt og að það geti orðið fyrirmynd svipaðra átaksverkefna víðar um land.

Jafnframt þessu vinnur umhverfisráðuneytið að því í samvinnu við Vegagerðina, Landmælingar, Umhverfisstofnun og viðkomandi sveitarfélög að skilgreina vegi á hálendi Íslands með það að markmiði að eyða óvissu um hvaða slóða megi aka og hvaða slóðar hafi verið myndaðir í óleyfi.
Birt:
20. ágúst 2009
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Mikilvægur áfangi í vinnu við að stöðva akstur utan vega“, Náttúran.is: 20. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/20/mikilvaegur-afangi-i-vinnu-vio-ao-stoova-akstur-ut/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: