Sveitasæla 2008 í Skagafirði
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Einar K. Guðfinnsson mun setja sýninguna og flytja ávarp við setningu hennar kl. 18 föstudaginn 15. ágúst en sýningin hefst kl. 16 sama dag og stendur til kl. 17 sunnudaginn 17. ágúst.
Þema sýningarinnar í ár eru hestar og hestamennska og verður allt milli himins og jarðar kynnt sem tengist hestamennsku og landbúnaði almennt, jafn framt sem vinsælir dagskrárliðir verða áfram á sínum stað s.s. vöru- og vélasýning, húsdýragarður, kálfasýning, hrútasýning, markaður, matarkynningar, leiktæki fyrir börnin auk þess sem flutt verða lífleg fræðsluerindi um íslenskan landbúnað.
Mikilla vinsælda hefur notið að fá að sækja bændur heim og verður að því tilefni opinn dagur hjá þeim Birni og Magneu á hrossaræktarbúinu Varmalæk, nemendahesthúsið Brúnastaðir á Hólum og nýtt róbótfjós hjá þeim hjónum Pálma og Ásu í Garðakoti í Hjaltadal.
SveitaSæla 2008 verður enn veglegri og með nýjar og frísklegar áherslur fyrir alla aldurshópa í ár og víst er að nóg verður við að vera þessa helgi. Söngvaborg kemur í heimsókn á sunnudeginum ásamt þeim stöllum Siggu Beinteins, Maríu Björk og fylgdarliði. Einnig verður boðið upp á skemmtidagskrá við reiðhöllina á föstudags- og laugardagskvöldið fyrir alla fjölskylduna þar sem verður skagfirskt grill og skemmtikvöld með tónlist glensi og gaman. Að sjálfsögðu koma hestar þar við sögu líka en í samstarfi við Hestamannafélagið Léttfeta verður hörku töltkeppni og kappreiðar og verða vegleg verðlaun í boði.
Frekari upplýsingar eru að finna á vef Skagafjarðar
Birt:
Tilvitnun:
skagafjordur.is „Sveitasæla 2008 í Skagafirði“, Náttúran.is: 13. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/13/sveitasaela-2008-i-skagafiroi/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.