Vegna umfjöllunar fjölmiðla um úrskurð umhverfisráðuneytisins varðandi kæru vegna útgáfu starfsleyfis til Lýsis hf. í Þorlákshöfn vill ráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.

Samkvæmt úrskurði umhverfisráðuneytisins er hert mjög á starfsskilyrðum verksmiðjunnar og starfsleyfistími styttur úr tólf árum í átta. Auk þess voru sett ný skilyrði í starfsleyfið. Það var gert til að koma til móts við kröfu kærenda og til að lágmarka mengun frá verksmiðjunni. Þannig var leitast við að tryggja hagsmuni íbúa í nágrenni verksmiðjunnar sem best. Ráðuneytið taldi lög ekki standa til þess að fella starfsleyfið úr gildi, einkum vegna meðalhófsreglunnar og sjónarmiða er tengjast atvinnuréttindum manna.

Samkvæmt skilyrðum sem ráðuneytið setti skal allt hráefni til vinnslu vera ferskt og koma til fyrirtækisins ísað í heilum körum, hráefni skal tekið til vinnslu svo fljótt sem auðið er og ekki má vinna eldra hráefni en fjögurra daga gamalt. Lýsi hf. á einnig að koma hreinsibúnaði fyrir við niðurföll og vistun á óhreinum ílátum verður óheimil innan dyra og utan. Þá er einnig gert að skilyrði að eftirlitsaðili viðhafi virkt eftirlit með starfseminni og loftræstingu sé stýrt þannig að hún valdi fólki ekki óþægindum vegna mengunar. Þá skal loftflæðisstreymi í þurrkklefa ávallt stillt með þeim hætti að lyktarmengun sé haldið í lágmarki.

Auk þess að stytta starfsleyfistíma ákvað ráðuneytið að starfsleyfið skuli endurskoðað með tilliti til lyktarmengunar eigi síðar en fjórum árum eftir útgáfu þess. Jafnframt ber að endurskoða starfsleyfið ef úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála staðfestir synjun Sveitarfélagsins Ölfuss um byggingarleyfi þvotta- og þéttiturna sem Lýsi hf. sótti um. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er úrskurðar úrskurðarnefndarinnar að vænta.

Með vísan til þeirra breytinga sem gerðar voru á skilyrðum starfsleyfisins samkvæmt úrskurðinum telur ráðuneytið að dregið verði úr lyktarmengun eins og unnt er. Þá telur ráðuneytið að framkvæmd og virkni skilyrða í starfsleyfinu ráðist að mestu af því hvernig heilbrigðisnefnd hagar lögmæltu eftirliti sínu með starfseminni.

Ráðuneytið vill árétta að síðustu að skipulagsvald er í höndum sveitarfélaga.

Sjá úrskurð umhverfisráðuneytisins
.

Birt:
17. apríl 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Athugasemd vegna umfjöllunar um úrskurð umhverfisráðuneytisins“, Náttúran.is: 17. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/17/athugasemd-vegna-umfjollunar-um-urskuro-umhverfisr/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: