Styrkur svifryks verður líklega yfir heilsuverndarmörkum
Styrkur svifryks verður líklega yfir heilsuverndarmörkum við miklar  bílaumferðargötur í Reykjavík í dag og næstu daga. Styrkur svifryks  mældist 100 míkrógrömm á rúmmetra milli 14:30 og 15:00 í dag við  gatnamót Stakkahlíðar og Miklubrautar. Heilsuverndarmörkin á sólarhring  eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. 
Skilyrði til svifryksmengunar eru  oft fyrir hendi í borginni í febrúar og mars: þurrt í veðri og kalt.  Upptök mengunar nú má rekja til bílaumferðar, nagladekkja og vindhraða í  borginni sem þyrlar upp ryki. Engin ástæða er að aka um á nagladekkjum  um þessar mundir. Almenningssamgöngur, minni hraði, naglalaus  vetrardekk, hjólreiðar og ganga draga úr mengun svo dæmi séu tekin. 
Þeir  sem eru með viðkvæm öndunarfæri, astma eða lungnasjúkdóma finna fyrir  svifryksmengun yfir heilsuverndarmörkum og ættu þeir því að forðast  miklar bílaumferðargötur á dögum sem slíkum.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Styrkur svifryks verður líklega yfir heilsuverndarmörkum“, Náttúran.is: 3. febrúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/02/03/styrkur-svifryks-verdur-liklega-yfir-heilsuverndar/ [Skoðað:4. nóvember 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 8. febrúar 2010
		
