Í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir:

Forseti Vísindaráðs um lofstlagsbreytingar (IPCC) heldur fyrirlestur í boði forseta Íslands:

Sjálfbær veröld: Ný stefna og tæknilausnir
Dr. Rajendra K. Pachauri forseti Alþjóðlegs vísindaráðs um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change), flytur fyrirlestur í boði forseta Íslands miðvikudaginn 14. júní kl. 13:15 í Öskju, húsi Náttúrufræðideildar Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn ber heitið „Sjálfbær veröld: Ný stefna og tæknilausnir” (Policy Imperatives and Technological Dimensions of a Sustainable World). Aðgangur er öllum opinn.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni Nýir straumar sem forseti Íslands stofnaði til fyrr á þessu ári og er að þessu sinni haldinn í samstarfi við Háskóla Íslands og í tengslum við Samráðsþing um loftslagsbreytingar sem um 200 fulltrúar um 100 stórfyrirtækja, háskóla og rannsóknarstofnana hafa setið í Reykjavík.

Alþjóðlegt vísindaráð um loftslagsbreytingar (IPCC – www.ipcc.ch) var stofnað að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna og ríkja heims. Á vegum Vísindaráðsins eru unnar ítarlegar skýrslur þar sem lagt er mat á það hve mikil hætta stafi af loftslagsbreytingum og hækkandi hitastigi í veröldinni á næstu áratugum. Að þeirri vinnu koma um 3000 vísindamenn hvaðanæva að úr veröldinni og hefur dr. Pachauri stýrt því starfi.

Dr Pachauri er einnig frumkvöðull að Dehli Sustainable Development Summit (DSDS) sem árlega kemur saman á Indlandi með þátttöku áhrifafólks og vísindamanna víða að úr veröldinni. Forseti Íslands tók þátt í fundum DSDS árið 2005. Þá stýrir Dr. Pachauri einnig víðtækri tækniþróun í þágu sjálfbærs þjóðarbúskapar.

12. júní 2006
Nánari upplýsingar veita skrifstofa forseta Íslands (540 4400) og Örnólfur Thorsson forsetaritari (896 3028).

Birt:
13. júní 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sjálfbær veröld: Ný stefna og tæknilausnir - Fyrirlestur Dr. Rajendra K. Pachauri“, Náttúran.is: 13. júní 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/21/sjalfverold/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. mars 2007
breytt: 16. maí 2007

Skilaboð: