Dómstólaleiðin lítur nú út fyrir að verða sú eina færa fyrir landeigendur við Þjórsá sem draga í efa lögmæti Títansamningsins og réttmæti aðgerða Landsvirkjunar við Þjórsá. Undirbúningur bótakrafna á hendur sveitarfélögum er einnig hafinn. Þetta kom fram á fundi landeigenda og andstæðinga virkjana í Sól á Suðurlandi á fundi í Flóanum. Á fundinum var rætt um nýja stöðu mála eftir að Flóahreppur samþykkti að auglýsa skipulag með Urriðafossvirkjun.

Sterkur vilji margra landeigenda og íbúa í sveitunum við Þjórsá til að verja ána og umhverfi hennar er óbreyttur og verður áfram leitað allra leiða til þess. Heimamenn úr bæði Árnes- og Rangárvallasýslu réðu ráðum sínum í vikunni ásamt stuðningsmönnum.

Margar nýjar upplýsingar komu fram um áform Landsvirkjunar og aðferðir sem beitt var þegar hættumat fyrir Flóahrepp var unnið og kynnt fyrr í haust. Sérfræðingar á vegum heimamanna telja matið ekki standast og geta sýnt fram á það.

Þá var það mat fundarmanna að hvorki sveitarfélögin né ríkisvaldið hefðu skýrt afstöðu sína og málsatvik fyrir almenningi sem skyldi. Ákveðið var að leita skýringa og afla upplýsinga um þau atriði sem enn eru óljós. Eitt af því er afstaða ríkisvaldsins til eignarnáms við Þjórsá. Annað atriði er skilgreining á því hvað átt er við með hugtakinu rennslisvirkjun í farvegi.

Efri myndin sýnir jarðrask Landsvirkjunar við Þjórsá. Myndin er tekin við Skarðsfjall að morgni 3. desember 2007. Ljósmyndarar: Albert og Ólafur Sigurjónssynir en myndin er tekin úr flugvél. Neðri mynd er af fundi Sólar á Suðurlandi þ. 28. nóvember sl.

Birt:
5. desember 2007
Höfundur:
Sól á Suðurlandi
Tilvitnun:
Sól á Suðurlandi „Málaferli við Þjórsá verði ekki hætt við virkjanir“, Náttúran.is: 5. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/05/malaferli-vio-thjorsa-veroi-ekki-haett-vio-virkjan/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: