Löng barátta Péturs M. Jónassonar eins helsta vatna-, jarð og líffræðings okkar, gegn lagningu hraðbrautarinnar „Gjábakkavegs“ (vegs #365) um Þingvallasvæðið, fékk stóran skell við ákvörðun ráðherra. Ákvörðunin stríðir ennfremur gegn niðurstöðum Umhverfisstofnunar og stefnir Þingvallavatni sem UNESCO heimsminjaskráðri náttúruperlu i hættu.

Eftir áratugalangar rannsóknir á vatninu og líffræði þess og eftir útgáfu nokkurra bóka um efnið komst Pétur að þeirri niðurstöðu að vatnið myndi ekki þola þá köfnunarefnismengun sem að berast myndi í vatnið með tilkomu hraðbrautar jafnnálægt vatninu og áætlun Vegagerðinnar og ákvörðun Alþingis gerir ráð fyrir. Með sannfæringu sína að vopni kærði Pétur niðurstöður Skipulagsstofnunar frá 24.05.2006 um mat á umhverfisáhrifum en stofnunin hafði þá fyrir sitt leyti gefið grænt ljós á framkvæmdirnar.

Landvernd tók þátt í slagnum með Pétri og sendi ítarlega skýrslu um málið, og lagðist gegn framkvæmdunum. Landvernd kærði síðan niðurstöður Skipulagsstofnunar einnig.

Ákvörðun Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra virðist einnig vera í beinu ósamræmi við undirritun ráðherra að reglugerðar, í fyrrasumar, en reglugerðin byggir á lögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 2005 og fela m.a. í sér verndun vatnasviðs svæðisins sem skilgreint er frá Hengli til Langajökuls þ.e. yfirborðsvatns og grunnvatns.

Reyndar er leyfið fyrir lagningu Gjábakkavegar nú háð þeim skilyrðum að mælingar hefjist á níturmengun í vatninu og verði síðan haldið áfram í 5 ár, til að fylgjast með hvort að menginin hafi áhrif á vatnið.
Eini gallinn er sá að áhrif níturmengunar taka miklu lengri tíma að koma í ljós og þegar að þær verða mælanlegar dog fara að hafa áhrif verður ekki aftur snúið.

Birt:
12. maí 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisráðherra gefur grænt ljós á Gjábakkaveg“, Náttúran.is: 12. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/12/rherra-gefur-grnt-ljs-gjbakkaveg/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: