Í kvöld verður gengin önnur fræðsluganga Orkuveitu Reykjavíkur þetta sumarið. Það er ganga þar sem hugað er að þeim smádýrum sem byggja Elliðaárdalinn. Leiðsögumaður verður  Guðmundur Halldórsson skordýrafræðingur og eru þátttakendur hvattir til að hafa með sér stækkunargler.

Lagt verður upp frá Minjasafni OR í Elliðaárdalnum kl. 19:30. Allir eru velkomnir og er þátttaka ókeypis.

Fræðslugöngurnar má rekja aftur til menningarársins 2000 og skiptir fjöldi þátttakenda þúsundum. Markmið þeirra er að bjóða almenningi vandaða leiðsögn um útivistarsvæði, sem Orkuveita Reykjavíkur starfar á, svo sem Elliðaárdalinn og Hengilssvæðið. Sextán göngur eru skipulagðar í sumar, flestar á þriðjudagskvöldum.

Sjá lista yfir fræðslugöngur sumarsins hér að neðan: 

9. júní 
Ganga á Hengilssvæðið
Þriðjudaginn 9. júní verður farin fræðslu og gönguferð á Hengilsvæðinu. Hugað verður að orkunni og beislun hennar, orkujarðfræði, gróðri og sögu. Mæting í Hellisheiðarvirkjun við Kolviðarhól kl.19:30. Leiðsögumenn er Einar Gunnlaugsson jarðfræðingur og Guðríður Helgadóttir líffræðingur.

16. júní 
Ganga á Nesjavallasvæðinu
Þriðjudaginn 16. júní verður Fræðslustígurinn við Nesjavelli genginn að hluta. Um er að ræða þægilega gönguleið þar sem fræðst er um náttúruna, söguna, jarðfræðina og hvernig orkan í Henglinum hefur verið beisluð. Gangan hefst kl. 19:30 við Nesjavallavirkjun og er þátttaka ókeypis og allir velkomnir. Leiðsögumaður er Almar Sigurðsson.

21. júní
Jónsmessuganga á Hengilinn
Sunnudaginn 21. júní verður farin gönguferð upp á Hengil. Gengið verður upp Sleggjubeinsskarð og upp á Vörðuskeggja sem er 805 metra hár. Þaðan niður í Innstadal og niður Sleggjubeinsskarðið. Gangan tekur u.þ.b. 5 klst. og er frekar erfið, að jafnaði um brattar fjallshlíðar. Nauðsynlegur búnaður eru góðir gönguskór, góður hlífðarfatnaður og nesti. Mæting í Hellisheiðarvirkjun við Kolviðarhól klukkan 20:00. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Leiðsögumaður er Almar Sigurðsson kynningarfulltrúi Hellisheiðarvirkjunar.
Ef veður verður tvísýnt verður gengin auðveldari leið.

23. júní
Íslenska flóran í Elliðaárdal
Orkuveitan efnir til göngu- og fræðsluferðar í Elliðaárdal undir leiðsögn Guðríðar Helgadóttur líffræðings þriðjudagskvöldið 23. júní. Skoðað verður margbreytilegt gróðurfar í dalnum, blómplöntur og byrkningar. Þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér stækkunargler. Gangan hefst kl. 19.30 við Minjasafnið í Elliðaárdal.

30. júní
Sögur og sagnir í Elliðaárdal – Gengið neðan Árbæjarstíflu
Þriðjudagskvöldið 30. júní verður farin göngu- og fræðsluferð í Elliðaárdal undir leiðsögn Stefáns Pálssonar sagnfræðings. Dalurinn á sér merka sögu allt frá komu Ketilbjarnar gamla landnámsmannsins þangað. Gengið verður um og sagðar sögur. Gangan hefst kl. 19.30 við Minjasafnið í Elliðaárdal.

7. júlí 
Sögur og sagnir í Elliðaárdal – Gengið ofan Árbæjarstíflu
Þriðjudagskvöldið 7. júlí verður farin göngu- og fræðsluferð í Elliðaárdal undir leiðsögn Stefáns Pálssonar sagnfræðings. Dalurinn á sér merka sögu allt frá komu Ketilbjarnar gamla landnámsmannsins þangað. Gengið verður um og sagðar sögur. Mæting er kl. 19.30 við Minjasafnið í Elliðaárdal.

14. júlí 
Elliðaár, örnefni og veiði
Þriðjudaginn 14. júlí mun Ólafur E. Jóhannsson leiða fræðslugöngu Orkuveitunnar í Elliðaár-dal, en Elliðaárnar sjálfar verða umfjöllunarefnið að þessu sinni. Fjallað verðum um laxveiðar í Elliðaánum fyrr og nú og sagðar sögur sem tengjast laxveiðum í ánni. Þá verður sagt frá nokkrum helstu veiðistöðum í ánni, veiðiaðferðum og fleiru sem við kemur stangaveiði. Lagt verður af stað frá Minjasafni Orkuveitunnar í Elliðaárdal kl. 19:30.

21. júlí
Ganga á Hengilssvæðið
Þriðjudaginn 21. júlí verður farin fræðslu- og gönguferð á Hengilsvæðinu. Hugað verður að orkunni og beislun hennar, orkujarðfræði, gróðri og sögu. Mæting í Hellisheiðarvirkjun við Kolviðarhól  kl.19:30. Leiðsögumenn er Einar Gunnlaugsson jarðfræðingur og Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur.

28. júlí
Jarðfræði í Elliðaárdal
Þriðjudagskvöldið 28. júlí verður farin göngu- og fræðsluferð í Elliðaárdal undir leiðsögn Einars Gunnlaugssonar jarðfræðings. Jarðfræði Elliðaárdals er stórkostleg. Í dalnum má t.d. finna jökulrákaðar grágrþtisklappir, hraun frá nútíma, sjávarhjalla og merkileg setlög. Gangan hefst við Minjasafnið í Elliðaárdal kl. 19.30.

3. ágúst
Ganga um Hengilssvæðið
Sunnudaginn 3. ágúst verður farin gönguferð um Engidal og inn í Marardal í vestanverðum Henglinum. Rifjaðar verða upp sögur útilegumanna á þessu svæði. Gangan er létt og tekur u.þ.b. fjórar klukkustundir. Mæting í Hellisheiðarvirkjun við Kolviðarhól klukkan 13:00.
Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Leiðsögumaður er Almar Sigurðsson kynningarfulltrúi Hellisheiðarvirkjunar.

8. ágúst
Fræðsluganga um Elliðaárdal og upp að Gvendarbrunnum
Laugardaginn 8. ágúst kl 10:00 efnir Orkuveita Reykjavíkur til fræðslugöngu frá Minjasafninu í Elliðaárdal, upp dalinn að Gvendarbrunnum. Meðal annars verður hugað að ánni, örnefnum, jarðfræði, gróðri og dýralífi. Fjölmargir fræðimenn koma til leiðsagnar. Umsjón Einar Gunnlaugsson.  Gengnir verða um 12 km en boðið verður upp á akstur til baka um kl 16:00.  Þátttakendur þurfa ekki að koma nestaðir.

11. ágúst 
Ganga á Nesjavallasvæðinu
Þriðjudaginn 11. ágúst verður Fræðslustígurinn við Nesjavelli genginn að hluta. Um er að ræða þægilega gönguleið þar sem fræðst er um náttúruna, söguna, jarðfræðina og hvernig orkan í Henglinum hefur verið beisluð. Gangan hefst kl. 19:30 við Nesjavallavirkjun og er þátttaka ókeypis og allir velkomnir. Leiðsögumaður er Almar Sigurðsson.

18. ágúst
Söguganga í Laugardal
Árið 1930 var heitu vatni dælt úr Laugunum til Reykjavíkur í fyrsta sinn og markar það upphaf hitaveitu. Gengið verður um orkusöguslóðir: Laugardalur-Bolholt-Fúlatjörn. Gangan hefst við Þvottalaugarnar kl. 19:30. Leiðsögumaður er Stefán Pálsson sagnfræðingur.

12. september
Gönguferð, Hellisheiðarvirkjun - Nesjavallavirkjun
Laugardaginn 12. september verður farin gönguferð frá Hellisheiðarvirkjun og til Nesjavallavirkjunar. Gengið verður upp Sleggjubeinsskarð og upp á Vörðuskeggja sem er 805 metra hár. Þaðan verður farið niður í Kþrdal og í Nesjavallavirkjun. Gangan tekur u.þ.b. 6 klst. og er frekar erfið, að jafnaði um brattar fjallshlíðar. Nauðsynlegur búnaður eru góðir gönguskór, góður hlífðarfatnaður og nesti. Orkuveita Reykjavíkur leggur til ferðir frá Reykjavík í Hellisheiðarvirkjun og tilbaka frá Nesjavallavirkjun og er mæting í höfuðstöðvar Orkuveitunnar að Bæjarhálsi 1, kl. 10:00. Áætlaður komutími tilbaka kl. 18:00. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Leiðsögumaður eru Hans Benjamínsson kynningarfulltrúi Hellis-heiðar¬virkjunar.

Yfirlit yfir Fræðslugöngurnar 2009 er að finna á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Myndin er frá Hengilssvæðisgöngu OR í fyrra, Orkuveita Reykjavíkur.
Birt:
2. júní 2009
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Fræðslugöngur Orkuveitu Reykjavíkur“, Náttúran.is: 2. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/02/skordyr-i-ellioaardalnum/ [Skoðað:24. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. október 2010

Skilaboð: