Samstarfsverkefni Vöruhönnunardeildar Listaháskóla Íslands og íslenskra bænda í heimaframleiðslu boðar til Matarmarkaðar nk. laugardag að Grandagarði 8 kl. 14:00-17:00.

Síðustu 7 vikur hafa nemendur vöruhönnunardeildar LHÍ unnið hörðum höndum að því að sérhanna ný ar íslenskar matvörur í samvinnu við samstarfsbændur sína. Nemendur hafa framleitt takmarkað upplag af þessum sérhönnuðu matvörum og gefst almenningi nú tækifæri á því að kynnast, bragða og versla þessar einstöku afurðir laugardaginn 15. mars. Athugið að markaðurinn er aðeins opinn þennan eina dag. Stefnumót hönnuða og bænda er frumkvöðlastarf og á sér enga fyrirmynd annars sta'ðar í heiminum. Markmið samstarfsins er að styrkja samkeppnisstöðu íslensk landbúnaðar með því að skapa nýjar íslenskar matvörur sem byggja á sérstöðu og rekjanleika.

UM VERKEFNIÐ:
Á Íslandi leynast ótal vannýttir möguleikar í framleiðslufyrirtækjum víðs vegar um landið. Möguleikarnir felast í samstarfi hönnuða og framleiðanda. Með því að nýta það hráefni sem er til staðar og þá tækni og þekkingu sem fyrirtækin búa yfir geta hönnuðir komið inn með vöruþróun sem getur verulega aukið verðmætagildi framleiðsunnar. Í dag stækkar sá markhópur sem gerir kröfur um vörur sem byggjast á góðri hönnun, gæðum og rekjanleika. Á þessum forsendum þurfa íslenskar vörur að byggja á.

Í flokki matvæla höfum við hráefni og þekkingu til staðar. Íslensk matvælaframleiðsla getur verið í hæsta gæðaflokki. Hér leynist fjöldinn allur af tækifærum sem kallar á samstarf við hönnuð til að skapa vöru með sérstöðu.

Í áfanganum hefur verið lögð áhersla á uppruna vörunnar, rekjanleika hennar og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Nemendum á öðru ári í vöruhönnun var boðið á stefnumót við bændasamfélagið til þess að skapa héraðsbundnar matvörur með sögulegri og menningarlegri skírskotun. Nemendur unnu í samstarfi við bændur í matvælaframleiðslu.
Bændurnir eru í heimaframleiðslu og margir hverjir eru þátttakendur í verkefninu “Beint frá býli”. Nemendur kynna sér afurðir þess bónda sem að þeir munu vinna með og í framhaldinu setja fram hugmyndir að vöruþróun með það að markmiði að auka verðgildi og eftirspurn.

Þetta er í annað sinn sem námskeiðið er haldið.
Verkefnið hlaut ný verið styrk úr tækniþróunarsjóði Rannís til næstu þriggja ára.
Kennarar: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir = BORÐIÐ.
Grafískur leiðbeinandi: Kristján Björn Þórðarsson

Samstarfsaðilar verkefnisins eru:

  • Beint Frá Býli
  • Tækniþróunarsjóður
  • Bændasamtökin
  • Matís ohf.
  • Central St. Martins, Design Lab London
  • Friðrik V Karlsson, Akureyri
Birt:
12. mars 2008
Tilvitnun:
Stefnumót hönnuða og bænda „Matarmarkaður - Stefnumót hönnuða og bænda“, Náttúran.is: 12. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/12// [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2008

Skilaboð: