Náttúruverndarsamtök Suðurlands NSS, hafa gert athugasemdir við auglýstar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfuss. 2002 - 2014, frestur til athugasemda rennur út í dag.

NSS leggjast alfarið gegn áformum um virkjun við Bitru, áður nefnd Ölkelduhálsvirkjun og telja að virkjunin rþri verulega lífsgæði íbúa í Hveragerði og í næsta nágrenni.

NSS telja að ekki hafi verið sýnt fram á að HS2 mengun og hávaðamengun af virkjuninni verði með þeim hætti að ásættanlegt sé að stunda slíka starfsemi við þétta byggð. Þó svo að fyrirhugað sé að leita leiða til að hreinsa HS2 úr útblæstri, og að niðurdæling sé áformuð, er óvíst að það muni leysa þann vanda sem skapast getur á framkvæmdatíma ef af virkjuninni verður enda ekki áformað eða mögulegt að hreinsa þann útblástur .
NSS vekja athygli á að HS2 mengun frá Hellisheiðarvirkjun hefur m.a. haft áhrif á loftgæði á höfuðborgarsvæðinu Einnig er vakin sérstök athygli á því að íbúar í Hveragerði og forystumenn þess sveitarfélags hafa gert ítrekaðar athugasemdir við áform um virkjun við Ölkelduháls/Bitru og leggjast eindregið gegn henni.

NSS vísar til þess að Hengilssvæðið, Ölkelduháls, dalirnir ofan Hveragerðis og afréttur Ölfuss ný tur vaxandi vinsælda, sem útivistarsvæði íbúa á vestanverðu Suðurlandi og höfuðborgarsvæðisins; hér er um að ræða dýrmætt útivistarsvæði í nánasta nágrenni við helsta þéttbýli landsins sem er auk þess að hluta til á náttúruminjaskrá. Svæðið er því ekki einungis dýrmætt fyrir Ölfusinga og Hvergerðinga heldur alla landsmenn.

NSS telja að náttúrugæðum verði spillt til frambúðar með fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum við Ölkelduháls og hvetja til varfærni og biðlundar með slíkar framkvæmdir. Bent skal á að svokallað landsskipulag liggur ekki enn fyrir og að alls óvíst sé hvort að virkjanaklasar af því tagi sem áformaðir eru á Hellisheiði, með tilheyrandi orkuflutningskerfi standist slíka skoðun þegar til kemur. Eins má benda á að alls ekki er fyrirséð hvort að losunarheimildir fáist fyrir stóriðjuáformum þeim sem að virkjun við Bitru hefði átt að knýja. Bent skal á að kapp er best með forsjá í þessum málum sem öðrum.

NSS gagnrýna ennfremur þann gjörning að sveitarfélagið Ölfus hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur skuldbundið sig til þess að skipuleggja svæðið „til samræmis við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru“ svo vitnað sé í bókun bæjarstjórnar Ölfuss frá 28. apríl 2006. Í bókun sveitarstjórnar, og samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, eru m.a. þær framkvæmdir bókaðar sem tilgreindar eru í auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi. NSS telja að nefndur samningur sveitarstjórnar Ölfuss við Orkuveitu Reykjavíkur, og bókun dags. 28. apríl 2006 sé ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti í skipulagsmálum.

Spúandi borhola á Hellisheiði. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
13. maí 2008
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Suðurlands „NSS leggst alfarið gegn áformum um virkjun við Bitru“, Náttúran.is: 13. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/13/nss-leggjast-alfario-gegn-aformum-um-virkjun-vio-b/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. maí 2008

Skilaboð: