Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Poznan
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst í dag í Poznan í Póllandi. Markmið fundarins er að færast nær samkomulagi um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þegar Kýótó-sáttmáli rennur sitt skeið á enda árið 2012. Stefnt er að því að ljúka samningaviðræðunum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn á næsta ári.
Um 8.000 fulltrúar frá 190 ríkjum sækja fundinn í Poznan. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra leiðir viðræðurnar fyrir Íslands hönd á ráðherrafundi sem fram fer í næstu viku. Aðrir fulltrúar umhverfisráðuneytisins á ráðstefnunni eru Hugi Ólafsson skrifstofustjóri, Stefán Einarsson sérfræðingur og Jón Geir Pétursson sérfræðingur. Þórir Ibsen sendiherra er formaður íslensku sendinefndarinnar á ráðstefnunni.
Alþjóðlegar samningaviðræður um loftslagsmál eru flóknar og taka til fjölmargra ólíkra þátta. Hluti þeirra er tæknilegs eðlis – s.s. um reglur um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda, reglur um bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu og svokallaða loftslagsvæna þróunaraðstoð – en jafnframt eru viðræðurnar pólitískar og snúast um hvort og hvernig ríki eins og Bandaríkin og stór og ört vaxandi þróunarríki á borð við Kína og Indland axla byrðar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Tímamót urðu í samningaferlinu á loftslagsráðstefnunni í Balí á síðasta ári. Þar náðist samkomulag um að hefja nýjar víðtækar samningaviðræður um gerð ný s framtíðarsamkomulags þar sem öll ríki kæmu að borðinu.
Ísland er í hópi þeirra ríkja sem vilja reyna að ná niðurstöðu sem tryggir að hlýnun lofthjúps jarðar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda verði ekki meiri en 2°C frá því sem var fyrir iðnbyltingu. Staða Íslands í þessum viðræðum er um margt flókin. Ísland býr við óvenjulegar aðstæður þar sem nær öll orkuframleiðsla á sér stað með endurnýjanlegum orkugjöfum en á hinn bóginn er losun frá samgöngum nær hvergi meiri á mann. Möguleikar á bindingu kolefnis úr andrúmslofti í gróðri og jarðvegi eru óvíða jafn góðir og á Íslandi.
Ísland hefur lagt fram tillögu í viðræðunum um að endurheimt votlendis verði viðurkennd sem leið til að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda á sama hátt og landgræðsla og skógrækt, í samræmi við loftslagsstefnu Íslands frá 2007. Tillaga Íslands hefur hlotið góðar undirtektir margra annarra ríkja, en framtíð hennar ræðst m.a. af því hvernig landnotkun í heild sinni er tekin inn í framtíðarsamkomulag.Sum ríki vilja auka þátt landnotkunar í því kolefnishagkerfi sem sett hefur verið á fót með Kýótó-bókuninni þar sem þar séu miklir ónýttir möguleikar til hagkvæmra aðgerða til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Önnur vilja fara hægar í sakirnar vegna þess að loftslagsbókhald fyrir landnýtingu er flóknara en fyrir t.d. orkuvinnslu eða iðnað og því erfiðari í framkvæmd. Ísland bauð til alþjóðlegs fundar sérfræðinga um bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu í Reykjavík í maí 2008. Þar voru samningamönnum á þessu sviði loftslagsviðræðnanna m.a. kynntar aðstæður hér á landi og sjónarmið Íslendinga.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Poznan“, Náttúran.is: 1. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/04/loftslagsraostefna-sameinuou-thjooanna-i-poznan/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. desember 2008