Álver í Helguvík langt frá því að vera í höfn
Sem innlegg í umræðuna um stöðu hugmyndarinnar um álver í Helguvík birtist hér orðrétt, af vef Alþingis, fyrirspurn Grétars Mars Jónssonar til Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra og svör hennar á fimmtudaginn var.
Grétar Mar Jónsson (Fl):
Frú forseti. Tilefni fyrirspurnar minnar til umhverfisráðherra er mengunarkvóti fyrir álver í Helguvík. Tilefnið er að Norðurál hyggst byggja álver í Helguvík og hefur auglýst eftir starfsfólki til starfa í álveri í Helguvík. Eftir því sem mér skilst er ekki búið að úthluta eða ákveða að álverið í Helguvík fái mengunarkvóta. Þess vegna ber ég upp þessa spurningu.
Suðurnesjamenn þurfa á álveri að halda. Það er mikil breyting á atvinnuháttum á Suðurnesjum. Varnarliðið fór fyrir einu og hálfu ári. Margt starfsfólk sem vann þar er reyndar með atvinnu en fær í mörgum tilfellum bara einn þriðja af fyrri launum eða helmingi lægri laun en það hafði þegar það var í vinnu hjá varnarliðinu. Niðurskurður í þorskkvóta, kvótakerfið, hefur haft veruleg áhrif á Suðurnesjum. Suðurnesjamenn sækja töluvert vinnu á höfuðborgarsvæðið. Uppsagnir eru núna í sjávarútvegi, allt hefur þetta áhrif á stöðu atvinnumála á Suðurnesjum til framtíðar litið.
Þess vegna ber ég þessa spurningu upp til hæstv. umhverfisráðherra, hvort ákveðið hafi verið að (Forseti hringir.) veita mengunarkvóta til álversins í Helguvík.
Umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):
Frú forseti. Losunarheimildum vegna yfirstandandi skuldbindingartímabils okkar við loftslagssamninginn, sem oft er kennt við Kyoto-bókunina, var úthlutað í fyrsta sinn 1. október sl. Það ber að endurskoða úthlutunina á hverju ári og það verður gert í þau fimm ár sem skuldbindingartímabilið stendur yfir. Eins og mönnum er kunnugt um var í raun úthlutað öllum almennum heimildum í haust og, ef ég man rétt, u.þ.b. 85% þeirra heimilda sem eru til ráðstöfunar á þessu fimm ára tímabili. Sjá frétt og töflur.
Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna vegna þess að hún vekur athygli okkar á því hversu langt á undan þeir menn eru oft í umræðunni um uppbyggingu verksmiðju eða annarrar atvinnu. Það ber að benda á það að vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver í Helguvík hefur fyrirtækið ekki aflað sér allrar þeirrar orku sem mér skilst að það þurfi til að geta byggja eitt slíkt álver. Það hefur ekki tryggt flutningsleiðirnar til þess að flytja orkuna í verksmiðjuna til að tryggja starfsemi slíks álvers. Það hefur heldur ekki orðið sér úti um þau leyfi sem mönnum og fyrirtækjum ber að verða sér úti um til að starfrækja slíka starfsemi.
Það er ekki fyrr en allt slíkt, vænti ég, er komið í hús, frágengið, undirritað og algjörlega pottþétt sem menn geta farið að auglýsa eða tala eins og starfsemin sé handan við hornið.
Grétar Mar Jónsson (Fl):
Frú forseti. Já, það er dálítið sérkennileg staða að menn séu farnir að auglýsa eftir starfsfólki. Reyndar hefur Reykjanesbær lagt í mikinn kostnað við byggingarlóð undir álver og allt virðist vera klárt þó að kannski sé orkuþátturinn ekki alveg nægur. Hann er þó nógur fyrir fyrsta áfanga. Þess vegna furðar maður sig á því — eða er verið að fela eitthvað, bíða með eða leyna fólk því að það eigi að úthluta mengunarkvóta til þessa álvers?
Þetta passar ekki alveg saman, gjörðir fyrirtækisins og það sem umhverfisráðherra segir. Ég hefði haldið og mundi draga ályktun af því að fyrirtæki sem er farið að auglýsa eftir starfsfólki í álver vissi eitthvað meira en ráðherra gefur hér í skyn. (Forseti hringir.)
Umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):
Frú forseti. Ég skil vel að hv. þm. Grétar Mar Jónsson spyrji þessara spurninga vegna þess að ráðamönnum fyrirtækja er fullkomlega kunnugt um það lagaumhverfi sem þau starfa í hér á landi, lög, reglugerðir, leyfisveitingar og annað slíkt, hvort sem það kemur frá ríkisvaldinu eða sveitarfélögunum.
Mönnum hlýtur að vera fullkunnugt um það umhverfi sem þeir starfa í og einnig hvernig staðið er að úthlutun losunarheimilda hér á landi. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að menn í slíkum rekstri hafi það algjörlega á hreinu í hvaða umhverfi þeir starfa, starfi samkvæmt því og geri sínar áætlanir í samræmi við það.
Birt:
Tilvitnun:
Grétar Mar Jónsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir „Álver í Helguvík langt frá því að vera í höfn“, Náttúran.is: 28. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/28/alver-i-helguvik-langt-fra-thvi-ao-vera-i-hofn/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.