Eitt helsta deiluefnið á loftslagsráðstefnunni í Bali er hvort iðnríki skuli stefna að 25 - 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2020 miðað við 1990; hvort það markmið skuli vera einn helsti bautasteinninn í Bali-vegvísinum eins og væntanleg niðurstaða samningaviðræðna hér í Bali er gjarnan nefnd. Einnig nefnt Bali-umboðið. Þetta markmið er nefnt í nýrri stefnumótun ríkisstjórnar Íslands um samningsmarkmið í Bali og áfram til fundarins í Kaupmannahöfn árið 2009. Vísað er til tilmæla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar um nauðsyn þess að bregðast við strax.

Bandaríkin hafna alfarið hvers kyns tölusettum markmiðum um samdrátt í vegvísinum. Formaður bandarísku samninganefndarinnar, Harlan Watson, sagði í bær, að "The reality in this business is that once numbers appear in the text, it prejudges the outcome and will tend to drive the negotiations in one direction." Nema hvað?

Gegn Bandaríkjunum stendur Evrópusambandið með Bretland og Þýskaland í fararbroddi. Þessi ríki benda á nauðsyn þess að draga skarpt úr losun iðnríkja á næsta skulbindingartímabili sem hefst 2013 til forðast 2°C hlýnun andrúmsloftsins. Vísað er til skýrslu Vísidnanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um að hitni andrúmloftið meira en 2°C aukist hættan verulega á stjórnlausum loftslagsbreytingum. Ennfremur, er bent á iðnríkin verða að taka forustu með góðu fordæmi til að þróunarríkin samþykki að taka þátt í skuldbindandi alþjóðlegum aðgerðum.



Vandamálið er að af leiðingar loftslagsbreytingar bitna mest á fátækum þjóðum þriðja heimsins; þjóðir sem minnstu hafa valdið um þann vanda. Mörg þeirra benda á að 2°C hlýnun sé meira en vistkerfi þeirra geta þolað.

Sigmar Gabriel, umhverfisráðherra Þýskalands, uppskar mest lófatak af þeim ráðherrum sem ávörpuðu þingið í gær. Hann naut þess að Angela Merkel, kanslari kynnti metnaðarfulla loftslagsstefnu í síðustu viku sem vakti mikla athygli. Gabriel sagði við blaðamenn: "I do not need a paper from Bali in which we only say, 'OK, we'll meet next year again'. How can we find a roadmap without having a target, without having a goal?"

Al Gore
mun ávarpa loftslagsþingið í kvöld. Hann sagði við fjölmiðla í gær að "The position of the administration in the US right now appears to be to try to block any progress in Bali. I hope that will change." Úrsltin munu ráðast á næstu 12 til 24 klukkustundum.

Aðrir bautasteinar á leiðinni til Kaupmannahafnar árið 2009 eru að stór þróunarríki í örum hagvexti (Brasilía, Indland, Kína) taki á sig skuldbindingar sem feli í sér að losun gróðurhúsalofttegunda aukist ekki í takti við öran hagvöxt þessara ríkja; að iðnríki aðstoði fátæk þróunarríki við nýtingu á hreinni tækni; að iðnríki aðstoði fátæk þróunarríki við að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og að stöðva eyðingu regnskóga en það felur í sér verulega fjárhagslega aðstoð.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, ávarpaði þingið fyrstur í morgun þar sem hann kynnti ákvörðun norskra stjórnvalda um að leggja til rúmar 500 milljónir dollara árlega til hefta eyðingu regnskóga næstu fimm ár. Ef Íslendingar legðu til sams konar upphæð yrði framlag okkar um það bil 25 milljónir dollara eða 1,5 milljarðar króna. Munu íslensk stjórnvöld gefa innihald þeim orðum sínum, að "... Ísland styðji aðgerðir sem miða að því að draga úr eyðingu regnskóga en talið er að eyðing skóglendis í þróunarríkjunum samsvari 20% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu."?

Birt:
13. desember 2007
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Bandaríkjastjórn stendur í vegi fyrir samkomulagi í Balí“, Náttúran.is: 13. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/13/bandarikjastjorn-stendur-i-vegi-fyrir-samkomulagi-/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: