Um daginn voru miklar fréttir af kaupum á vetnisfólksbíl og þetta sögð vera fyrstu skrefin að vetnissamfélaginu. Augu fjölmiðla beindust að þessum mikla atburði og umfjöllunin var á þeim nótum að vetnið sé nánast að verða raunhæfur valkostur. Og eins og venjulega fékk Íslensk ný orka gríðarlega umfjöllun. En á sama tíma eiga sér stað hljóðlátar breytingar sem engin tekur eftir og enga athygli fá en þar leynast samt sem áður hin raunverulegu möguleikar í samgöngumálum þjóðarinnar.

Fyrst ber að nefna díselvæðinguna. Loksins árið 2005, eftir 15 ára undirbúning, var hægt að breyta skattakerfinu og opna fyrir fólksbíla með díselvélar. Það voru olíufélögin og Vegagerðin sem börðust harðast gegn þessari breytingu. Skrþtið að það hafi verið hlutverk Vegagerðarinnar að berjast fyrir því að á Íslandi voru seldir eyðslufrekir bensínbílar frekar en sparneytnir díselbílar. Sé allur fólksbílaflotinn skoðaður þá eru bensínbílar 84% og díselbílar 16%. Sé litið á selda bíla það sem af er þessu ári þá eru bensínbílar 72% og díselbílar 27%. Þannig að díselbílarnir eru í sókn þótt mikið vanti upp á, hlutfallið ætti að vera öfugt. Þess væri óskandi að stjórnvöld myndu hygla sparneytnum bílum, t.d. með því að lækka vörugjöld. Þar mætti taka tillit til þriggja þátta, hversu öruggur bíllinn er gagnvart árekstri (5 stjórnu bíll), hvað hann mengar mikið (með sótagnasíu) og hvað hann losar mikinn koltvísýring (t.d. minna en 150 g/km í blönduðum akstri).


En það er fleira í kortunum. Mikilvægasta tæknibyltingin fyrir ísland eru tvinnbílarnir en þeir eru bæði með bensínvél og rafmótor. Þar er Toyota og Lexus í sérflokki. Að vísu eyðir tvinnbíll ekkert minna en díselbíll en tvinntæknin opnar leiðina fyrir rafmagnsbíla og því ber að fagna þessari tækniþróun. Í dag eru tvinnbílarnir á skrá, 300 talsins en það sem af er þessu ári hafa selst 80 tvinnbílar þannig að stefnan er í rétta átt. Inn í þessar tölur fléttast það að Toyota og Lexus þurftu að skammta tvinnbílana á hvern markað vegna takmarkaðrar framleiðslugetu og mikillrar eftirspurnar. Gaman er að segja frá því að þriðjungur seldra Lexus bíla á íslandi í ár eru tvinnbílar. Næsta kynslóð verður tengitvinnbíllinn en þá verða rafgeymarnir það stórir til að það megi hlaða þá upp á nóttunni og keyra 50 - 150 km á hleðslunni. Til eru breytingarfyrirtæki í Bandaríkjunum sem taka Toyota Prius og breyta í tengjanlegan tvinnbíl en enginn stór bílaframleiðandi hefur hafið framleiðslu á slíkum bílum enný á. Hins vegar er slíkt í skoðun hjá öllum stærstu bílaframleiðendum heims og hafa sumir boðað framleiðslu á slíkum bílum eftir tvö til þrjú ár. Þessir bílar munu verða nánast sem rafmagnsbílar og þá getur ísland raforkuvætt samgöngurnar. Jafnvel þótt vetnisbíllinn muni komast á raunhæft stig eftir tíu ár þá mun hann aldrei geta keppt við tengitvinnbílana því þeir myndu hafa afgerandi forskot.

Aðrir orkugjafar en bensín og dísel eru líka til. Þar má fyrst nefna metan-gas sem kemur frá sorphaugum Reykvíkinga. Til eru 100 bílar á íslandi sem hafa gaskúta og annan búnað til að nýta sér gasið.

Síðan er það líf-díselolía sem væri hægt að flytja inn og selja rétt eins og venjulega díselolíu. Slíkur innflutningur er í farvatninu hjá olíufélögunum. Góður kostur er líka að blanda líf-díselolíu saman við venjulega díselolíu en það gefur hreinni bruna og fer betur með vélarnar. Líf-díselolíu má nota á alla nýlega díselbíla.

Þriðji orkugjafinn er etanól (eða alkahól). E85 er til dæmis blanda af 85% etanóli og 15% bensíni. Etanólið er notað á sérútbúna bensínbíla sem skynja eldsneytisblönduna hverju sinni og stilla vélina samkvæmt því til að ná fram bestu ný tni. Brimborg, sem flytur inn Volvo, í samfloti með Olís hyggst ríða á vaðið með slíka bíla strax í haust.

Af öllu þessu má sjá að það er margt í gangi. Þess vegna er skrþtið að sjá lætin sem verða út af einum vetnisbíl. Það er eins og fjölmiðlar hafi enn ekki áttað sig á því að vetnisumræðan er einungis yfirvarp stjórnmálamanna sem ekkert hafa gert í umhverfismálum. Og brellan heppnast alltaf jafn vel.

Höfundur er vélaverkfræðingur.

Myndskreyting: 3 litlir bílar fóru í leiðangur. Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
13. júlí 2007
Höfundur:
Einar Einarsson
Uppruni:
Einar Einarsson
Tilvitnun:
Einar Einarsson „Vetnisbíll - blindgata“, Náttúran.is: 13. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/13/vetnisbll-blindgata/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. september 2010

Skilaboð: