Eins og fram hefur komið hélt Framtíðarlandið haustþing sitt á Hótel Nordica í gær. Það er í sjálfu sér ánægjulegt og mörgum af þeim 2509 sem skráðu sig á lista Framtíðarlandsins var vafalaust farið að hlakka til að heyra um hvernig félagið ætlar að starfa í framtíðinni og á hvaða forsendum. En það sem boðið var upp á voru fyrirlestrar fluttir af mætu og viðurkenndu fagfólki sem tengist sannarlega framtíð landsins á einn eða annan hátt, þó ekki sé kannski hægt að segja að margt nýtt hafi komið þar fram. Fundargestum var síðan boðið að hengja hugmyndir sínar (skrifaða á litla Post-it miða), sem passa við þær framtíðaryfirsagnir sem fundurinn byggðist á, upp á töflur í fundarhléum. Í lok dagkrár voru síðan haldnar pallborðsumræður en aldrei í gegnum alla dagskrána var fundargestum boðið að tjá sig eða setja fram spurningar. Ekki einu sinni við pallborðsumræðurnar. Það er nokkuð sem er mjög óvenjulegt, sérstaklega í ljósi þess að um haustþing félags er að ræða sem annars hefur einungis boðið til eins fundar, stofnfundarins.

Nú má segja að það sé kannski ekki ástæða til að agnúast út í fundarfyrirkomulag og að það hljóti að vera nægir möguleikar fyrir félagsmenn til að tjá sig, en það hefur því miður ekki verið raunin. Stofnfundurinn, hefði þurft að vera formlegur með kosningu stjórnar og tilheyrandi, en stjórn Framtíðarlandsins var „ekki“ kosin af félagsmönnum sínum heldur var sjálfkjörin af stofnendum og kallar sig „bráðabirgastjórn“. Í krafti valds síns gaf bráðabirgðastjórn Framtíðarlandsins yfirlsþsingar til fréttamanna um stjórnmálaþátttöku og mögulegt framboð til Alþingiskosninga í vor. Þetta var gert eftir fundinn. Það komust fundarmenn að á fréttamiðlum „eftir fundinn“ og í blöðum í morgun. Þessar yfirslýsingar voru ekki reifaðar né bornar upp á fundinum, fundi sem setinn var fólki úr öllum flokkum, fólki sem er annt um landið og vill vinna að því að stöðva stóriðjustefnuna, jafnvel hver með sínum áherslum og í sínum flokki. Þetta fólk verður án efa ekki félagar í Framtíðarlandinu áfram ef raunin verður sú að Framtíðarlandið sé stjórnmálaflokkur en ekki það sameiningarafl sem gæti styrkt innra starf hvers flokks fyrir sig í átt að þeim markmiðum sem félagsmenn hafa sameinast um með undirskrift sinni.
-

Niðurstaða mín er því sú að bráðabrigðastjórn Framtíðarlandsins sé gróflega að misnota sér trúgirni og hundseðli Íslendinga með því að kjósa aðeins að flagga skráðum félögum sem „fylgi við sig“ en ráðfæra sig ekki við félagana að öðru leiti.
-
Það er enn tími til að breyta þessu og vígja Framtíðarlandið inn í lýðræðisleg vinnubrögð þar sem „allir“ félagar hafa eitthvað að segja um það hvort að félagið fari þá leið að bjóða fram til þings eða verða afl inn í starf þeirra flokka sem fyrir eru. Það er grundvallarkrafa að vinnubrögð séu lýðræðisleg í hvaða flokki sem er og í hvaða félagi sem er. Það væri ófyrirgefanlegt ef að sú samstaða sem er fyrir hendi nú þegar um áherslur, myndi fuðra upp, vegna framagirni örfárra einstaklinga og hræðslu þeirra við að stækka hringinn.

Birt:
30. október 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hundar eða félagsmenn? - Félagar Framtíðarlandsins“, Náttúran.is: 30. október 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/felagar_framtl/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 15. maí 2007

Skilaboð: