Rannsóknardeild opnuð í Selasetri Íslands
Síðasta vetrardag var rannsóknadeild Selaseturs Íslands á Hvammstanga opnuð með pompi og prakt. Við þetta tækifæri voru undirritaðir samstarfssamningar setursins við Veiðimálastofnun og Hólaskóla en starfsmenn frá báðum stofnunum hafa nú aðsetur í setrinu.
Starfsmaður Veiðimálastofnunar er Sandra Magdalena Granquist og mun hún stunda selarannsóknir en starfsmaður Hólaskóla er Per Åke Nilsson sem auk kennslu við skólann mun sinna rannsóknum á sviði náttúrutengdrar ferðaþjónustu.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri var sérstakur gestur opnunarinnar og sagði hún að sem líffræðingur væri hún mjög glöð að sjá loks samþættingu ferðamálafræði og náttúruvísinda í verki, sem hún teldi nauðsynlegt hér á landi þar sem náttúran er helsta aðdráttaraflið.
Að formlegri undirskrift lokinni var gestum boðið upp á kynningu á alþjóðlega samstarfsverkefninu The Wild North, sem verkstýrt er frá Selasetrinu. Aðstandendur setursins voru mjög ánægðir með daginn og þess fullvissir að rannsóknardeildin muni verða grundvöllur enn frekari atvinnuuppbyggingar við setrið, en til gamans má geta að í sumar verða starfsmenn setursins sjö talsins.
Birt:
Tilvitnun:
Ferðamálastofa „Rannsóknardeild opnuð í Selasetri Íslands“, Náttúran.is: 24. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/24/rannsoknardeild-opnuo-i-selasetri-islands/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.