Vínber
Vínber þroskast ekki úti hér á landi. Þegar sjónvarpskonan Sigríður Arnardóttir sá vínberin í gróðurhúsinu mínu minntist hún annarrar heimsóknar, til Telmu Ingvarsdóttur í Austurríki. Þar sem þær sátu og spjölluðu hafði Telma fært henni ferskan, heimapressaðan vínberjasafa. Þegar svo leið á daginn og viðtalið var vel á veg komið opnaði Telma kampavínsflösku og bætti út í safann þeim til yndisauka. Fæst eigum við litla handhæga vínberjapressu en þær eru einnig góðar til að pressa jurtir fyrir seyði og olíur. En ef búinn er til vínberjasafi er upplagt að gera vínberjahlaup handa börnunum.
Ávaxtahlaup með hnetusmjöri ofan á brauð var þjóðarréttur í Bandaríkjunum þegar ég bjó þar. Aðferðin væri sú sama og við krækiberjahlaup. Spurning hvort maður sþður vínberin til að sprengja úr þeim safann eða pressar þau. Þau eru sætari en krækiber og þurfa minni sykur en sama magn af sultuhleypi. Hlaup getur varla mistekist, það má bræða það upp aftur og þykkja ef það er of þunnt.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Myndin er af vínberjaklasa í gróðurhúsi Hildar Hákonardóttur í Ölfusi. Myndin er tekið þ. 10.08.2008. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Vínber“, Náttúran.is: 10. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2007/08/16/vnber/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. ágúst 2007
breytt: 19. apríl 2009