Nú, daginn eftir að Landsvirkjun viðurkennir loks opinberlega að kostnaðaráætlun Kárahnjúkavirkjunar standist ekki og að framkvæmdir séu komnar nokkra milljarða framúr áætlun, lýsir Friðrik Sóphusson forstjóri því yfir að ekki verði samið við álfyrirtæki á Suður og Vesturlandi „í bráð“ um raforkukaup en viðræður séu í gangi við tvö orkufrek fyrirtæki af annarri gerð, annars vegar netþjónabú og hinsvegar kísilhreinsunarstöð. 

Svo virðist sem að Landsvirkjun sé að gera tilraun til að hreinsa nafn sitt af sölu á ódýrri orku til álvera, hafi lært af mistökunum og sjái nú að gáfulegra sé að setja egg sín í fleiri körfur og jafnframt vilji fyrirtækið gera tilraun til að kippa stoðunum undan mótbárum við virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Mótbárurnar þar byggjast þó alls ekki einvörðungu á því að orkan eigi að fara til álvera heldur eru þær byggðar á jarðfræðilegri óvissu og þeirri staðreynd að í virkjununum felast hættur fyrir íbúa svæðisins auk þess sem að óafturkræf umhverfisáhrif munu hljótast af uppistöðulónunum og stíflunum ef af verður.

Landsvirkjun er greinilega komin í þrot með argúment fyrir virkjanaáformin og venda því sínu kvæði í kross í von um að hugarfarsbreyting gagnvart þeim eigi sér stað í kjölfarið.

Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi (tilvonandi Rio Tinto Alcan) sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld að ákvörðun Landsvirkjunar komi sér á óvart og valdi sér miklum vonbrigðum en Össur er glaður í bragði. Það er því óhætt að segja að vatnaskil hafir orðið orkumálaumhverfi þjóðarinnar í dag og að um mörg málbein hafi losnað.

Myndin er af skilti við útsýnispall Kárahnjúkavirkunar, áður en hann fór í kaf. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
9. nóvember 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Landsvirkjun vendir kvæði sínu í kross“, Náttúran.is: 9. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/landsvirkjun-vendir-kvi-snu-kross/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. nóvember 2007

Skilaboð: