Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar fær ISO 14001 vottun
Starfsmenn á reiðhjólum og í vistvænum bílum, engar ruslafötur undir skrifborðum, sjöstiga flokkunarkerfi í eldhúsinu og prentað báðum megin á allan pappír. Þetta er meðal þess sem tíðkast á Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar sem fékk í dag vottun fyrir umhverfisstjórnarkerfið sitt fyrst stofnana á Íslandi. „Það er ekki aðeins mikilvægt að borgin leggi sitt að mörkum heldur einnig að hún sé í fararbroddi í umhverfismálum,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri þegar hún tók fyrir hönd sviðsins við vottorðinu.
„Umhverfisstjórnunarkerfið hvetur starfsmenn til vistvænnar hegðunar og hugsunar,” sagði Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstýra Umhverfis- og samgöngusviðs og nefndi sem dæmi að bílstjórar Sorphirðunnar, sem aki um á metanknúnum bifreiðum, hafi farið á vistakstursnámskeið og að starfsmenn garðyrkjunnar jarðgerði nú garðúrgang sem fellur til í borgarlandinu.
„Við hvetjum íbúa, fyrirtæki og stofnanir í borginni til að taka upp vistvænan rekstur,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri. Hún tilkynnti jafnframt ákvörðun um að hrinda verkefni um Græn skref fyrir allar borgarstofnanir í framkvæmd.
Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar er fyrsta opinbera stofnunin hér á landi sem starfrækt er með ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfi. Innan við 20 fyrirtæki á Íslandi hafa fengið þessa vottun. Kerfið er alþjóðlegur staðall sem lýsir því hvernig koma megi á virkri umhverfisstjórnun í hvaða rekstri sem er. Kerfið felur meðal annars í sér betri stýringu umhverfismála hjá sviðinu og þannig borginni allri, m.a. varðandi endurvinnslu, efna- og eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda. Vottun hf. veitti vottorðið.
Ljósmynd: Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstýra, Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri og Gísli Marteinn Baldursson form. umhverfis- og samgönguráðs.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar fær ISO 14001 vottun“, Náttúran.is: 7. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/07/umhverfis-og-samgongusvid-reykjavikurborgar-faer-i/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 8. maí 2010