Dr. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur, flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Erindið verður flutt mánudaginn 30. apríl kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.
Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.


Ágrip af erindi Freysteins Sigmundssonar:

„Mörg rök hafa verið færð fyrir því að kvikuhólf sé undir Heklu. Í slíkum eldfjöllum verða eldgos þegar kvikuþrýstingur nær að yfirvinna brotmörk kvikuhólfs og kvika brýst til yfirborðs. Í kvikukerfi Heklu virðist bæði kvikuþrýstingur og brotmörkin vera breytileg, en það getur skýrt mjög breytilegan tíma sem líður á milli eldgosa í fjallinu.

Mælingar á jarðskorpuhreyfingum með margvíslegum aðferðum við Heklu benda til þess að kvika safnist fyrir í kvikuhólfi djúpt undir fjallinu milli gosa, og streymi þaðan til yfirborðs í eldgosum. Ef gert er ráð fyrir kúlulaga kvikuhólfi reiknast dýpi á miðju þess mismunandi eftir því hvaða gögn eru notuð: bylgjuvíxlmælingar úr ratsjárgervitunglum benda til 14-20 km dýpis, nýjar GPS-landmælingar til 22-29 km dýpis og þenslumælingar í borholum til um 10 km dýpis. Ljóst er þó að kvikuhólfið liggur í neðri hluta jarðskorpunnar þar sem hiti er nægur til þess að seigfjaðrandi efnishegðun skorpunnar veldur því að kvika getur komið sér fyrir án þess að byggja upp jafnmikla spennu og gerist í grunnstæðum kvikuhólfum ofar í jarðskorpunni.

Aðfærslukerfi kviku í eldgosinu 2000 virðist einkennast að mjórri aðfærslurás úr þessu djúpa kvikuhólfi sem opnast upp í berggang á nokkurra kílómetra dýpi undir gossprungunni. Sett hefur verið fram sú hugmynd að aðfærslurásin úr djúpa hólfinu ráði miklu um breytilegan tíma milli eldgosa í Heklu. Milli gosa með stuttum hléum, eins og eftir 1947, þá nær aðfærslurás kviku úr djúpa hólfinu ekki að storkna milli gosa. Sérstaka hegðun Heklu má þá skýra í tenglsum við djúpa kvikusöfnun í seigfjaðrandi hluta jarðskorpunnar sem og að brotmörk kvikuhólfsins eru breytileg með tíma, eftir því hvort aðfærsluæðin til yfirborðs nær að lokast og storkna fyllilega milli gosa.“


Freysteinn Sigmundsson er fæddur árið 1966. Hann lauk BS-prófi í jarðeðlisfræði frá HÍ 1985, MS-prófi 1990 frá HÍ, og Ph.D. gráðu við University of Colorado í Boulder árið 1992. Freysteinn starfar sem jarðeðlisfræðingur á Norræna eldfjallasetrinu við Jarðvísindastofnun Háskólans og vinnur þar m.a. að rannsóknum á eldvirkni og jarðskorpuhreyfingum.

Ljósmynd: Séð til Heklu, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
30. apríl 2012
Höfundur:
Háskóli Íslands
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Hvenær gýs Hekla? Innviðir eldfjalls og jarðskorpuhreyfingar“, Náttúran.is: 30. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/30/hvenaer-gys-hekla-innvidir-eldfjalls-og-jardskorpu/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: