Úthlutunarnefnd losunarheimilda lauk í dag fyrstu árlegu endurskoðun áætlunar um úthlutun heimilda til að losa gróðurhúsalofttegundir.

Fyrirtækin sem fá úthlutað losunarheimildum að þessu sinni eru: RioTinto Alcan í Straumsvík (152.255 losunarheimildir), Norðurál í Helguvík (539.000 losunarheimildir) og Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði (29.200 losunarheimildir). Samtals gera þetta 720.455 losunarheimildir.

Aðeins er úthlutað til atvinnurekstrar sem hyggur á nýja eða aukna framleiðslu fyrir árslok 2012. Miðað við fyrirliggjandi gögn telur nefndin ljóst að undirbúningur áðurnefndra framkvæmda er það langt á veg kominn að framleiðsla geti hafist á umræddu tímabili.

Alcan í Straumsvík fær úthlutað losunarheimildum til aukinnar framleiðslu sem verður við straumhækkun í núverandi kerskálum fyrirtækisins. Norðurál í Helguvík fær úthlutað losunarheimildum vegna fyrri áfanga ný s álvers í Helguvík með framleiðslugetu allt að 150.000 tonnum á ári. Alcoa Fjarðaál fær úthlutað losunarheimildum til aukinnar framleiðslu sem verður við straumhækkun í kerskálum fyrirtækisins.

Við ákvörðun nefndarinnar er tekið mið af því hversu langt í undirbúningi framkvæmda viðkomandi fyrirtæki eru komin þegar úthlutun á sér stað og hvort viðkomandi starfsemi muni hefjast á skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar 2008-2012.

Að mati nefndarinnar eru ekki forsendur til að úthluta heimildum til annarra umsækjenda að svo stöddu. Óvissa er enn um stöðu þeirra t.d. varðandi orkuöflun, niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum, útgáfu starfsleyfis og skipulagsforsendur. Þau fyrirtæki sem hér um ræðir eru RioTinto Alcan í Þorlákshöfn, Tomahawk Development í Helguvík, Alcoa á Bakka við Húsavík og RioTinto Alcan í Straumsvík 2.

Nefndin hyggst auglýsa losunarheimildir til umsóknar á næsta ári og gefst þá tækifæri til að senda inn nýjar umsóknir. Þá verða eftir til ráðstöfunar um 1,1 milljón losunarheimilda.

Alls hafði nefndin 10.500.000 losunarheimildir til ráðstöfunar vegna tímabilsins 1. janúar 2008 til 31. desember 2012. Nefndin úthlutaði 8.633.105 losunarheimildum til fimm fyrirtækja í september á liðnu ári (sjá frétt frá úthlutunum siðasta árs).

Samkvæmt lögum um losun gróðurhúsalofttegunda er iðnaðarframleiðslu, sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega og orkuframleiðsla með brennslu jarðefnaeldsneytis, sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega, óheimilt að starfa á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 nema hún afli sér losunarheimilda eða leggi fram áætlun um hvernig slíkra heimilda verði aflað.

Úthlutunarnefnd losunarheimilda var skipuð af umhverfisráðherra í maí 2007 í samræmi við lög um losun gróðuhúsaloftegunda. Í nefndinni eiga nú sæti Sveinn Þorgrímsson frá iðnaðarráðuneytinu, formaður, Sigríður Auður Arnardóttir frá umhverfisráðuneyti og Angantþr Einarsson frá fjármálaráðuneyti.Tafla: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
30. september 2008
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Úthlutun losunarheimilda 2008“, Náttúran.is: 30. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/01/uthlutun-losunarheimilda-2/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 1. október 2008

Skilaboð: