Mikil gróska er í gerð kvikmynda sem fjalla um umhverfismál með einum eða öðrum hætti. Þriðja árið í röð veitir RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, þessum myndum sérstaka athygli í flokki mynda sem kallast Nýr heimur. Sjö myndir verða í flokknum að þessu sinni og verða verðlaun veitt fyrir bestu myndina í flokknum. Flokkurinn er unninn í samvinnu við okkur hér á Náttúran.is en við fengum styrk frá Norræna menningarsjóðnum til verkefnisins.

Á meðal umfjöllunarefna í myndunum sjö má nefna afar neikvæðar breytingar á ástandi heimshafanna, stærsta olíuborpall á jörðinni, stórhættulegan sænskan eiturúrgang í Chile og fólk sem hefur gert það að ævistarfi sínu að berjast fyrir umhverfisvernd.

Boðað verður til sérstaks málþings um umhverfismál í tengslum við flokkinn, auk þess sem leikstjórar tveggja mynda í flokknum koma til landsins, þau Marc Wolfensberger, leikstjóri Oil Rocks: City Above The Sea, og Sylvie Van Brabant, leikstjóri Earth Keepers. Þau munu bæði svara spurningum í lok sýninga á myndum sínum, auk þess sem þau munu taka þátt í málþinginu.

Þær myndir sem sýndar verða í flokknum Nýr heimur í ár eru annars þessar:

A Sea Change (Bandaríkin, 2009)

Ímyndið ykkur veröld án fiskjar. Vísindamenn hafa að undanförnu tekið eftir hækkun sýrustigs í heimshöfunum sem gæti leitt til hruns á fiskimiðum, sem gæti varað í milljónir ára. Þegar hinn norsk-bandaríski Sven Huseby heyrði fyrst af vandamálinu einsetti hann sér að finna bæði svör og lausnir á því. Sven fer um allan heim og hittir vísindamenn, aðgerðasinna og frumkvöðla sem vinna allir að því að koma í veg fyrir að allt fari á versta veg. Þess á milli fer Sven og hittir fimm ára gamalt barnabarn sitt, Elias, sem undirstrikar hversu mikla ábyrgð við berum varðandi framtíð heimshafanna. A Sea Change hefur verið sýnd á kvikmyndahátíðum um allan heim og hlotið á þeim fjölmörg verðlaun, enda varpar hún ljósi á lítt þekkta, en afar dökka hlið umhverfismála.
A see change - Hverfult haf
er sýnt dagana 25., 27. og 28. september.

Toxic Playground (Spánn, Svíþjóð, Chile, 2009)

Hinn 23 ára gamli Lars frá Svíþjóð er við nám í kvikmyndagerð í Chile. Hin 12 ára gamla Yoselin er magadansmær sem hefur hug á að verða læknir, en mjaðmir hennar eru hins vegar farnar að gefa eftir. Lars kemst fljótlega að því að hundruð barna í Cerro Chuño hafa veikst alvarlega vegna eiturúrgangs frá Svíþjóð. Lars reynir að komast að því hvort Boliden, námufyrirtækið sem á hlut að máli, sé skaðabótaskylt vegna þess sem hefur komið fyrir Yoselin og hin börnin. Boliden neitar hins vegar að taka á sig nokkra sök í málinu. En í kjölfarið hefur Lars upp á Rolf, fyrrum yfirmanni umhverfismála hjá Boliden, sem viðurkennir að hafa mælt með því að eitrið væri flutt á brott. Það kemur Lars því mjög á óvart þegar Rolf samþykkir að koma með sér til Chile til þess að sjá afleiðingarnar.
Toxic Plaground - Eitraður leikvangur er sýnd dagana 24., 26., 28. og 29. september.

Winds of Sand, Women of rock (Belgía, Austurríki, Frakkland, 2009)

Að búa í Sahara eyðimörkinni er bæði erfitt og einfalt fyrir fólkið í Tubu ættbálknum. Karlar og konur hafa mjög skýr og afmörkuð hlutverk. Karlarnir rækta úlfalda, konurnar eru bundnar við heimilið. Ef konan vill gera eitthvað þarf hún leyfi hjá húsbóndanum til þess. Þetta ástand væri óbærilegt ef það væri ekki fyrir árlega 1.500 kílómetra langa göngu sem konurnar leggja upp í gegnum eyðimörkina til þess að safna ávöxtum af pálmatrjám. Þótt ferðalagið sé erfitt færir það þeim efnahagslegt sjálfstæði, stolt og sjálfstraust að safna ávöktunum og selja þá.
Winds of Sands, Women of Rock - Vindur sandsins, konur grjótsins er sýnd dagana 25. og 26. september.

 

Earth Keepers (Kanada, 2009)

Earth Keepers fylgir eftir aðgerðarsinnanum Mikael Rioux frá Quebec sem hafði ungur að árum áhrif á að fljótinu sem hann elskaði svo mjög var bjargað. Í dag berst hann fyrir fjölmörgum málefnum er varða umhverfi okkar. Eitt sinn var hann reiður ungur maður en í dag er hann ungur faðir sem er mjög umhugað um hverju hann skilar til sonar síns, og er því bæði hugaður og hefur löngunina til að læra. „Ég var orðinn þreyttur á því að tala bara um hlutina. Ég vildi finna lausnir og komast að alvöru niðurstöðum,‟ segir Mikael. Þessi hugsjón hans drífur hann áfram og er jafnframt rauði þráðurinn í þeim sögum sem sagðar eru í þessari áhrifamiklu heimildarmynd.

 

The Blood Of The Rose (Bretland, Þýskaland, Japan, 2009)

Þessi magnaða mynd segir sögu af ótrúlegu lífshlaupi og hræðilegum dauðdaga kvikmyndagerðarmannsins og umhverfisverndarsinnans Joan Root, og fjallar jafnframt um baráttu hennar fyrir því að bjarga Naivasha vatninu í Kenía. Myndin er ævisöguleg en varpar einnig fram spurningunni um hver drap Joan Root. Hér er á ferðinni fallegur virðingarvottur við óttalausa baráttukonu, en myndin veltir því einnig upp hversu mikið þurfi til að stöðva svokallaðar framfarir í veröldinni.
The Blood of the Rose - Blóð rósarinnar er sýnd dagana 24., 25. og 26. september og 2. október.

 

Oil Rocks - City above the Sea (Sviss, 2009)

Fyrsti, og jafnframt stærsti olíuborpallur sem nokkru sinni hefur verið byggður á hafi úti er í miðju Kaspíahafi og var reistur af Jósef Stalín árið 1949. 60 árum síðar er borpallurinn, sem er kallaður Oil Rocks, enn í notkun og fyrsta kvikmyndatökuliðið frá vesturlöndum er boðið velkomið í heimsókn. Ímyndið ykkur 200 kílómetra af brúm, þúsundir olíuverkamanna, hundruð palla, allt að níu hæða byggingar, lystigarð og íþróttaleikvang. Hljómar eins og Atlantis, en er hins vegar raunverulegt. Í myndinni má bæði sjá gamlar myndir frá Sovét-tímanum og nýjar myndir frá borpallinum, en aðaláherslan er lögð á að segja sögu þessa tímalausa staðar og íbúa hans.
Oil rocks - City above the Sea - Borgin yfir hafinu er sýnd dagana 24. og 30. september, 1. og 2. október.

 

The Mermaid’s Tears: Oceans Of Plastic (Frakkland, 2009)

Höfin hafa á skömmum tíma orðið ruslakista heimsins. Á hverjum kílómetra af sjó má finna að meðaltali 74.000 einingar af plasti. Þessi mengun dregur hundruð þúsunda dýra til dauða á hverju ári, auk þess sem mengunin skríður smátt og smátt upp fæðukeðjurnar. Hollenskir vísindamenn sem rannsakað hafa fugla af fýls-ætt hafa fundið plast í meltingafærum 95% þeirra fugla sem þeir hafa rannsakað. Í Þýskalandi hafa efni úr plasti haft áhrif á æxlunarkerfi dýra og í Kaliforníu hafa náttúruverndarsinnar komist að því að hvalir og höfrungar deyja í auknum mæli kvalafullum dauðdaga þegar meltingakerfi þeirra fyllast af rusli. En hver verða langtíma áhrif þessarar plast-mengunar? Er eitthvað hægt að gera til þess að hreinsa heimsins höf?
The Mermaid's Tears: Oceans of Plastic - Plasthöf er sýnd dagana 24. og 30 september, 1. og 2. október.

Sjá nánar á vef RIFF.

Ná í bæklinginn (Pdf 12 Mb).

Sjá dagskrá RIFF á vefnum.

Birt:
20. september 2010
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfismyndir í öndvegi á RIFF “, Náttúran.is: 20. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/30/umhverfismyndir-i-ondvegi-riff/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. ágúst 2010
breytt: 25. september 2010

Skilaboð: