Yfirlýsing frá aðstandendum undirskriftasöfnunar á orkuaudlindir.is
Yfirlýsing frá aðstandendum undirskriftasöfnunar á orkuaudlindir.is eftir fund að morgni þess 17. janúar, 2011 með Jóhönnu Sigurðarsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni í Stjórnarráðinu.
Á fundi undirritaðra með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherrra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra afhentum við undirskriftir tæplega 50.000 Íslendinga þar sem skorað er á ríkisstjórnina að vinda ofan af sölunni á HS Orku og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð orkuauðlindanna og nýtingu þeirra.
Fundurinn var málefnalegur og stuðningur forsætis- og fjármálaráðherra við áskorunina er fagnaðarefni. Fram kom að stjórnvöld íhuga ýmsar leiðir til úrlausnar á málinu. Undirrituð hvöttu til þess að almenningi væri haldið upplýstum um framgöngu málsins. Við teljum okkur ekki hafa umboð til að semja um málavöxtu við stjórnvöld en munum gera okkar ítrasta til að stuðla að því áfram að rödd þjóðarinnar fái hljómgrunn. Við lögðum áherslu á það sjónarmið nær fimmtíu þúsund Íslendinga að nauðsynlegt sé að stöðva einkavæðingarferlið þegar í stað. Það er stjórnvalda að ákveða hvaða leiðir eru farnar. Á fundinum kom fram vilji og ásetningur stjórnvalda til þess að vinda ofan af sölunni á HS Orku í samræmi við fyrri yfirlýsingar. Einnig var ítrekaður skýr vilji stjórnvalda til að rannsaka einkavæðingarferlið og tryggja almannaeign orkufyrirtækja landsins. Samhliða verði unnið að því að auðlindir landsins og nýtingarréttur þeirra verði aftur í þjóðareign. Þá var rætt um nauðsyn þess að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu fari fram opin umræða um framtíðarorkustefnu þjóðarinnar. Þolinmæði stórs hluta þjóðarinnar er brátt á þrotum. En við fögnum málefnalegri samræðu og vilja til að vinna markvisst að því að finna lausn hið bráðasta.
Björk Guðmundsdóttir, Jón Þórisson og Oddný Eir Ævarsdóttir
Birt:
Tilvitnun:
Oddný Eir Ævarsdóttir, Björk Guðmundsdóttir, Jón Þórisson „Yfirlýsing frá aðstandendum undirskriftasöfnunar á orkuaudlindir.is“, Náttúran.is: 17. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/17/yfirlysing-fra-adstandendum-undirskriftasofnunar-o/ [Skoðað:24. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.