Í „Orði dagsins“ á vef Staðardagskrár 21 gerir Stefán Gíslason samanburð á Íslandi og öðrum löndum hvað varðar tölu fyrirtækja með umhverfisvottunarkerfið ISO 14001.

Stefán talar um að einn sá mælikvarði sem hægt er að beita til að leggja mat á umhverfisvitund þjóða, er fjöldi fyrirtækja sem hafa komið sér upp vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við staðalinn ISO 14001. Á Íslandi höfðu 6 fyrirtæki náð þessum áfanga um síðustu áramót, nefnilega Alcan, Borgarplast, Morgunblaðið, Hópbílar, Hagvagnar og Orkuveita Reykjavíkur. Það sjöunda, Línuhönnun, bættist svo í hópinn í febrúar. Á þessu sviði stendur Ísland jafnfætis Puertó Rico, Hondúras, Kazakhstan, Papúa Nýju-Gíneu og Palestínu. Stefán heldur áfram að telja upp lönd og hve mörg ISO 14001 vottuð fyrirtæki þau hafa að skarta. Segir hann svo að lokum að á Norðurlöndunum sé Noregur í næstneðsta sæti á undan Íslandi með 452 fyrirtæki vottuð. Um áramót voru 103.583 fyrirtæki í heiminum vottuð skv. ISO 14001 og hafði þá fjölgað um 16,6% á 9 mánaða tímabili.

Það er því umhugsunarefni hvort að ekki vanti nokkuð upp á að það borgi sig fyrir fyrirtæki á Íslandi að standa í því veseni sem fylgir því að uppfylla kröfur þær sem settar eru í umhverfisstjórununarkerfum og vottunum af ýmsu tagi. Fyrirtæki hafa nokkuð látið frá sér heyra um það að ekki sé nægjanlegt stuðningskerfi fyrir hendi, þar sem tekið sé tillit til umhverfisstarfs í fyrirtækjum, t.d. hvað varðar annað eftirlit og kostnað sem af því hlýst, í ofanálag. Eins viti almenningur lítið sem ekkert hvað felst í ISO 14001 staðlinum og öðrum umhverfisvottunum yfir höfuð. Bankar virðast heldur ekki gera sér far um að ganga í augun á umhverfisvottuðum fyrirtækjum og enginn þeirra hefur enn sýnt áhuga á að taka það frumkvæði. Á Norðurlöndum og í öðrum siðmenntuðum löndum keppast nokkrir bankar í hverju landi um að vera „umhverfisvænir“ og höfða þannig ekki aðeins til fyrirtækja með umhverfisvottanir heldur borgaranna sem í æ ríkari mæli aðhyllast græna lifnaðarhætti og vilja hafa viðskipti við aðila sem virða það og verðlauna. Þróun í átt umhverfisvitaðra lifnaðarhátta og neyslu er einnig í fullum gangi hér á landi og því spurning hver verður fyrstur til?

Grafík: Guðrún Tryggvadóttir.

 


Birt:
13. júní 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „„Orð dagsins“ - Bananalýðveldið Ísland“, Náttúran.is: 13. júní 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/21/bananalydveldid/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. mars 2007
breytt: 16. maí 2007

Skilaboð: