Vatnshæð í Markarfljóti hækkaði aftur milli kl. 2 og 3 í nótt og varð svipuð því sem var í hámarki flóðs í gærkvöldi. Hefur farið lækkandi síðan. Hugsanlega á það hlut að máli að aur og sandur hafi hækkað botn árinnar.

Enginn skjálfti hefur mælst á svæðinu síðan fyrir klukkan sjö í gærkvöldi.

Nú er ákveðin vestanátt yfir Eyjafjallajökli. Öskufall gæti því orðið frá eldstöð og austur að Höfn í Hornafirði. Því er spáð að vindátt snúist í norðanátt í kvöld og þá má búast við að aska falli suður af eldstöðinni. Ekki er búist við miklum breytingum á háloftavindum og því má búast við að aska haldi áfram að berast yfir Evrópu.

Þéttur öskustrókur liggur nú yfir Norður-Noregi og þar hefur orðið vart við öskufall. Búast má við öskufalli víðar í Evrópu í dag. Nú liggur öskustrókur yfir norðurströnd Póllands, Þýskalands og Frakklands, Belgíu, suðurströnd Englands og Norðvestur-Rússlandi.

Enn er stöðug og þétt framleiðsla á ösku í eldstöðinni og ekkert bendir til að framleiðslan minnki á næstunni.

Birt:
16. apríl 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Fréttir af mælingum og spám Veðurstofu Íslands í tengslum við gosið í Eyjafjallajökli“, Náttúran.is: 16. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/16/frettir-af-maelingum-og-spam-vedurstofu-islands-i-/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: