Orð dagsins 13. desember 2007
Blöðrur geta innihaldið nokkurt magn af nítrósamínum og efnum sem geta umbreyst í nítrósamín þegar þau leysast upp í munnvatni. Í framhaldi af athugun Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen), þar sem þetta kom í ljós, hefur Troels Lund Poulsen, umhverfisráðherra Danmerkur, óskað eftir því við neytendaráðherra Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að reglum um efnainnihald í blöðrum verði bætt inn í leikfangatilskipun sambandsins, sem nú er til endurskoðunar. Í gildi eru reglur um magn nítrósamína sem losnað geta úr gúmmítúttum og snuðum, en samsvarandi reglur eru ekki til fyrir blöðrur, nema þá í Hollandi og Þýskalandi.
Danska umhverfisráðuneytið beinir því til foreldra að láta ung börn ekki leika sér með blöðrur, þar sem þeim hættir jú til að setja leikföng í munninn. Sömuleiðis ráðleggur ráðuneytið fólki að blása blöðrur upp með pumpu í stað þess að leggja þær að vörum sér. Ekki er um að ræða mikið magn nítrósamína, en þó í flestum tilvikum yfir greiningarmörkum fyrir gúmmítúttur og snuð. Nítrósamín geta valdið krabbameini.
Lesið fréttatilkynningu danska umhverfisráðuneytisins í dag
og kynnið ykkur Rgl. nr. 389/1995
Orð dagsins birtast einnig á vef Staðardagskrá 21 á Íslandi samband.is/dagskra21
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Orð dagsins 13. desember 2007“, Náttúran.is: 13. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/13/oro-dagsins-13-desember-2007/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. desember 2007