„Strax á Menningarnótt kom í ljós að Hverfisgata hefur alla burði til að vera lífleg miðborgargata,“ segir Hans Heiðar Tryggvason arkitekt og verkefnisstjóri hjá Umhverfis- og samgöngusviði í tilefni þess að tilraun með hjólarein á götunni er lokið.

Fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarráði snemma þessa árs en þar er meðal annars að finna áætlun um að bæta árlega við 10 km af hjólaleiðum í borginni. Gerð var tilraun á Hverfisgötu með hjólarein frá 20. ágúst til 30. september til að kanna hvað gæti virkað vel við reykvískar aðstæður og hvað ekki.

Ólíkar lausnir voru kynntar á Hverfisgötu: hjólarein, hjólavísar, hjólareitir við gatnamót og loks hjóladoppur við Þjóðleikhúsið og Vitatorg en þær eru leiðbeinandi merki og þýða samnýtingu gangandi, hjólandi og vélknúinna ökutækja.

Borgarbúar hafa sent margar góðar ábendingar og álit á hjólreininni á Hverfisgötu og verður nýjum gögnum safnað og meðal annars leitað álits hjá hagsmunaaðilum við Hverfisgötu. Hjólareinin skapaði góðar umræður um samgöngumál í borginni.

Hjólavísar og doppur verða áfram á Hverfisgötu en í dag, 1.október, er unnið að því að fjarlægja hjólareinina og hjólareitina. Stöðumælar verða nú settir upp á nýjan leik og stæðin gjaldskyld eins og áður. „Við vinnunm nú úr gögnunum og metum hvað best er að gera í áframhaldinu,“ segir Hans Heiðar og að tilraunin sé gott vegarrnesti fyrir borgina til að þróa samgöngukerfið og gera það vistvænna.

Birt:
1. október 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Hverfisgata lífleg miðborgargata “, Náttúran.is: 1. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/01/hverfisgata-lifleg-midborgargata/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. nóvember 2010

Skilaboð: