Sex verndarsvæði hafa verið stofnuð í Norðaustur-Atlantshafi, meðal annars á Mið-Atlantshafshryggnum, samkvæmt ákvörðun ráðherrafundar Samningsins um vernd NA-Atlantshafsins (OSPAR) sem fram fór í Bergen í Noregi í liðinni viku. Þetta er í fyrsta sinn sem verndarsvæði af þessu tagi eru sett á fót fyrir utan efnahagslögsögu ríkja og er vonast til að þau geti orðið öðrum svæðisbundnum samningum fyrirmynd á þessu sviði. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sat fundinn fyrir hönd Íslands.

Verndarsvæðunum er meðal annars ætlað að stuðla að verndun lífvera, viðkvæmra búsvæða og sérstæðra jarðmyndana á hafsbotni. Nýju verndarsvæðin eru 285.000 ferkílómetrar að flatarmáli og bætast við net verndarsvæða sem ríki OSPAR, þar á meðal Ísland, hafa áður tilkynnt innan lögsögu sinnar. Samtals ná verndarsvæði sem tilnefnd hafa verið í net OSPAR nú yfir 433.000 ferkílómetra hafsvæði.

Stofnun nýju verndarsvæðanna verður kynnt sérstaklega á aðildarríkjafundi Samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem fram fer í Nagoya í Japan í október. Sum svæðanna höfðu áður verið friðuð fyrir fiskveiðum af NA-Atlantshafs fiskveiðinefndinni (NEAFC).

Á ráðherrafundinum var einnig ákveðið að endurskoða regluverk um olíuboranir á hafi til að koma í veg fyrir slys á borð við það sem varð á Mexíkóflóa í apríl á þessu ári. Bandaríkjastjórn vinnur nú að skýrslu um orsakir og afleiðingar slyssins og mun OSPAR hafa niðurstöður hennar að leiðarljósi við endurskoðunina. Einnig var ákveðið að stuðla að vitundarvakningu meðal sjómanna um þann vanda sem aukið magn úrgangs í hafinu hefur valdið og aðildarlöndin eru hvött til að bæta aðstöðu í höfnum til að taka á móti rusli sem berst á land með skipum. Þá var ný og umfangsmikil úttekt á ástandi Norðaustur-Atlantshafsins kynnt á fundinum. (http://qsr2010.ospar.org/en/index.html)

OSPAR-samningurinn er samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Markmið samningsins er að koma í veg fyrir mengun hafsins með því að draga úr mengun frá landi, mengun af völdum varps og brennslu, og mengun frá uppsprettum í hafi. Auk þess tekur hann á mati á ástandi hafsins og verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins. Ísland fullgilti samninginn árið 1997.

Birt:
27. september 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Sex verndarsvæði stofnuð í Norðaustur-Atlantshafi“, Náttúran.is: 27. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/09/27/sex-verndarsvaedi-stofnud-i-nordaustur-atlantshafi/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. september 2010

Skilaboð: