Stormviðvörun fimmtudaginn 6. janúar 2011
Almannavarnadeild ríkslögreglustjóra vill vekja athygli á því að Veðurstofan varar við stormi um allt land og talsverðri ofankomu norðaustanlands.
Spá Veðurstofunnar sem gerð var í morgun og gildir til kl. 18:00 7. janúar er svohljóðandi: Norðaustan og síðan norðan 13-23, hvassast austanlands, með éljagangi N- og A-til, en skýjað að mestu syðra. Norðan 18-28 seint í kvöld og snjókoma um norðanvert landið. Lægir talsvert á Austurlandi upp úr miðnætti. Norðaustan 10-18 síðdegis á morgun og él N- og A-lands. Frost 3 til 15 stig, kaldast inn til landsins. Hiti kringum frostmark með A- og S-ströndinni á morgun.
Nú þegar er farið að hvessa víða norðanlands og austan og útlit fyrir að bæti í vind í dag en að veðrið verði verst frá miðnætti.
Rétt er að benda á að búast má við sterkum vindhviðum sunnan fjalla svo sem á Snæfellsnesi, á Kjalarnesi, undir Eyjafjöllum, við Lómagnúp, í Öræfum og svo áfram þaðan austur og norður með ströndinni.
Þá er einnig ástæða til að benda á að nú er stórstreymt og verður morgunflóðið í Reykjavík kl. 07:00 í fyrramálið og er sjávarstöðu spáð í 4,16 metrum að áhlaðanda meðtöldum. Á Húsavík verður sjávarstaðan hæst á kvöldflóðinu í kvöld en það verður um miðnættið, þá er spáð að áhlaðandi verði um 40 sentimetrar og sjávarstaða verði í 1,63 metrum. Háflóð á Raufarhöfn verður um kl. 02 í nótt.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Stormviðvörun fimmtudaginn 6. janúar 2011“, Náttúran.is: 6. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/06/stormvidvorun-fimmtudaginn-6-januar-2011/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.