Krossmessa á hausti
Hún er 14. september og samkvæmt helgisögninni er hún í minningu þess, að þá hafi krossinn Krists verið endurreistur í annað sinn á Golgata. Er svo sagt, að Heraklíus keisari í Konstantínópel hafi stolið honum frá Höfuðskeljastað og hann ekki náðst aftur fyrr en á 6. eða 7. öld.
Þótt krossmessa á vor hafi lengur verið mönnum hugstæð en nafna hennar á haust, sakir vinnuhjúaskildagans, benda líkur til þess, að haustmessan hafi verið meiri skemmtunardagur. Til að mynda er ekki annað að sjá en sjálf Jörfagleðin, hvað frægust samkoma á Íslandi, hafi einmitt verið haldin aðfaranótt hennar. Elsta heimild um Jörfagleðina, sem enn hefur fundist, er Grímsstaðaannáll skráður af Breiðfirðingi, sem fæddur er örfáum árum áður en atburðirnir eiga að hafa gerst. Þar segir svo meðal annars við árið 1695:
“Deyði Björn Jónsson á Staðarfelli, nýorðinn sýslumaður í Dalasýslu. Hann afskipaði um haustið Jörfagleðina, sem þar hafði um og fyrir mannaminni, sem þá lifðu, haldin verið á krossmessunótt um haustið. Item afskipaðu hann Staðarfellsgleðina, sem þá hafði langa tíð að undanförnu haldin verið, ýmist nóttina fyrir eða eftir nýársdag. En svo bar til vorið eftir, að flestallt lambfé á Jörfa fæddi skrímsli og örkumluð lömb, hvar af varð stór skaði.”
Þótt þjóðtrúin hafi á síðari áratugum helst viljað færa Jörfagleðina til jólanna samkvæmt reglu Bíblíunnar: þeir sem mikið hafa mun gefið verða, en frá þeim sem lítið hafa mun tekið veðra, þá er það síst ósennilegt, að enmitt miður september hafi þótt heppilegur til gleðisamkvæma. Þá er heyskap yfirleitt lokið, réttir ot sláturtíð rétt óhafin, orðið hæfilega skuggsýnt á kvöldin og samt ekki tiltakanlega kalt. Þetta hefur þá verið nokkurskonar kaupakonudansleikur. Hvað sem rétt kan að vera í frásögnum þjóðtrúarinnar um Jörfagleðina, þá hlýtur að teljast heiðarlegt að birta hið fáa, sem um þessa hluti er að lesa.Eitthvert elsta dæmi frá síðari tímum er frá hinum að allra dómi sannorða heiðursmanni, Magnúsi Andréssyni í Syðra-Langholti, sem hann hefur eftir ömmu sinni og ætti að eiga við fyrra hluta 18. Aldar. Sú gamla hefur þá sagt, að hver gleðisamkoma stæði nóttina út og væri haldin á bæum, “þar sem voru rúmgóðar baðstofur eða svokölluð baðstofugólf fyrir neðan pallinn, sem tíðast tók manni í mitti. Á honum voru rúmin, þar sem þau voru ekki í skála fram í bæ. Víða voru pallar á báðum körmum, en stofur voru þá ekki á bóndabæjum, og varla á prestsetrum. Baðstofan var uppljómuð með ljósum. Síðan paraði gleðifólkið sig saman, kall og kelling, héldust í hendur og stogi dans í hring með kvæðasöng. Sum kvæði voru klámkenndar amorsvísur, en sum líka lýtalaus, og svo þar á milli, svo sem til dæmis:Hér geng ég í gleðinasvo lág og víðog held í hönd a manniHeldur krikasíð.Síðan bætir Magnús Andrésson við:“Naumast mun hafa verið laust við samræði kalla og kvenna í sumum þeirra, jafnvel þótt kellingarnar léti lítið á því bera, þegar þær með gleðibrosi minntust á slíkar ungdómsskemmtanir. Það hefur víst ekki víða verið eins frekt og í þeirri nafntoguðu Jörfagleði.”
Þó að fátt sé vitað um Jörfagleðina annað en það, sem kalla mætti kjaftasögulegt efni, fer það varla milli mála, að hún hafi verið staðreynd á sinni tíð. Fyrir utan annálsgreinina frá öndverðri 18. öld er full ástæða til að vekja athygli á ummælum Magnúsar Stephensens konferensráðs í “Eftirmælum 18. aldar”:
“Meðan Jón (bróðir Árna Magnússonar prófessors) hafði lögsögu í Dalasýslu er mælt, að hann hafi dæmt af Jörfagleði (hvörja Björn sýslumaður Jónsson þó 1695 hafði afskipað áður en Jón afdæmdi þessa gleði hefði í henni komið 19 börn undir. Eru það undur, ef þessi tilfelli hefðu knúð hann til að dæma gleðina af.”
Þessi síðustu orð Magnúsar Stephensens lúta að því, að Jón Magnússon var alræmdur kvennamaður og glaumgosi á þeirra tíma vísu einsog þeir frændur fleiri. Hann missti prestskap tvívegis fyrir hórdómsbrot og sýslumannsembætti einu sinni, einmitt sama árið og han á að hafa bannað Jörfagleðina. Var hann þó að örðu leyti talinn greindasti maður einsog sú ætt öl. Loks var hann dæmdur frá lífi fyrir fjórða hórdómsbrotið, en konungur náðaði hnn, líklega vegna ættgöfgi og tengsla.
Það er þessvegna sem biskupsfrúin í Íslandsklukkunni er látin segia við Snæfríði systur sína vegna sambands hennar við Árna eða Arnam Arnæum: “Veistu eki að þetta er emsta kvennamannaætt á landinu?”
Sr. Guðmundur Einarsson, faðir Theodóru Thoroddsen, var prestur á Kvennabrekku í Dölum um miðja 19. Öld, fárra tíma gang utan við smáháls frá Jörfa. Verður því að ætla, að hann hafi að minnsta kosti haft fyrir sér munnmæli nágrannafólks á þessari tíð. En sú frásögn hljóðar svo: “Sótti þangað fjöldi fólks til skemmtunar. Þar var stiginn dans, kveðin ástakvæði, leiknir ýmsir leikir og margháttuð skrípalæti í frammi höfð. Ungt fólk og óráðsett fýsti mjög að fara í gleðir þessar og sótti þær langar leiðir. Er það enn þá í mæli, að hjú hafi ráðið sig heima með því skilyrði, að þeim væri heimilt að fara í gleðina, og að til gleðinnar, sme haldin var að Jörfa í Haukadal, hafi ei aðeins sótt fólk úr öllum Breiðafjarðardölum, heldur ogsvo utan af Skógarströnd og vestan yfir Rauðamelsheiði.”
Nákvæma lýsingu á Jörfagleði er ekki unnt að fá. Það helsta, sem sr. Guðmundur á Kvennabrekku hefur á sínum tíma getað uppspurt, er þessi lýsing, sem óneitanlega er auðvelt að vefengja í sumum atriðum:“Fólkið, sem sótti gleðina, safnaðist saman til að leika á baðstofugólfi (því jafnan mun hafa verið nokkuð stórhýst á Jörfa). Það sem ekki lék, sat á palli. Sá var Hoffmann eða Hoffinn nefndur, er stýrði gleðinni ,en sá Alfinn, er næstur honum gekk. Þessu næst fóru leikar fram, og hvort þeir hafa verið margir eða fáir, þá er sagt, að þeir hafi endað með þessu atkvæði:
Mey vill Hoffinn
mey vill Alfinn
mey vilja allir Hoffins sveinar.
Er þá mælt, að kallmenn hafi gengið í kvennahópinn, foringjar fyrst og svo hver af öðrum, og tekið sér konu til fylgilags. Ein sem var í Jörfagleði hinni síðustu og tók þá uppundir, kvað hafa lýst 18 sem feður að barni sínu. Sú hét Þórdís, sem bjó að Jörfa, þá gleðin var afskipuð, og þótti henni fyrir, að svo var, og flutti sig burtu. Enda bar svo við, að næsta vetur hljóp fram snjóflóð úr Jörfahnúksgili í fyrsta sinni (en oft síðan), og var það ekið sem reiðiteikn eða óblessunar, þar gleðin væri aftekin. Enn fremur er í mæli að Jón lögsagnari Magnússon hafi fengið þau gjöld fyrir afskipun gleðinnar, að hann hafi misst á hverjum vetri vænstu kúna sína eða reiðhestinn. Álfar áttu sem sé að hafa tekið þátt í gleðinni, sem ekki sáust heldur en hinir sem sáust.”
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Krossmessa á hausti“, Náttúran.is: 14. september 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/krossmessa-hausti/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013