Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni hefur útnefnt árið 2010 sem ár líffræðilegrar fjölbreytni. Ætlunin er að vekja athygli á málefnum líffræðilegrar fjölbreytni og þeim afleiðingum sem rýrnun hennar getur haft í för með sér. Leitast verður við að fá sem flesta til að taka þátt í að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni.

Hugtakið líffræðileg fjölbreytni felur í sér alla fjölbreytni plantna, dýra og örvera, sem og fjölbreytni vistkerfa og erfðafræðilega fjölbreytni innan tegunda. Líffræðileg fjölbreytni jarðar fer hnignandi, margar tegundir hafa horfið á undanförnum áratugum og fjöldi tegunda er í útrýmingarhættu. Úttekt Sameinuðu þjóðanna á vistkerfum árið 2005 gaf til kynna að athafnir manna á síðustu 50 árum hafa breytt vistkerfum heimsins meira en á nokkru öðru skeiði mannkyns og útrýmingarhraði tegunda á síðustu áratugum er margfaldur á við það sem menn geta lesið úr jarðsögunni. Þetta er þróun sem nauðsynlegt er að snúa við.

Á aðildarríkjaþingi Samningsins um líffræðilega fjölbreytni (2006) og leiðtogafundi um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg (2002) settu þjóðir heims sér það markmið að draga verulega úr rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni sem hefur átt sér stað á síðustu áratugum og hefur árið 2010 verið notað sem viðmið vegna þessa.

Umhverfisstofnun hefur unnið að 2010 markmiðinu með þátttöku í verkefninu Náttúra Norðursins. Að verkefninu komu öll Norðurlöndin. Meginmarkmið verkefnisins var að stöðva rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni fyrir árið 2010 með því að veita upplýsingar um málefni er varða vernd líffræðilegrar fjölbreytni með útgáfu samnorrænna upplýsingablaða.

Slagorð ársins 2010 – árs líffræðilegrar fjölbreytni er Líffræðileg fjölbreytni er lífið – líffræðileg fjölbreytni er okkar lífBiodiversity is life – Biodiversity is our life.

Ísland hefur verið aðili að Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni síðan 1993. Samningurinn hefur í för með sér viðamiklar alþjóðlegar skuldbindingar fyrir Ísland sem lúta að verndun og sjálfbærri nýtingu lífríkisins.

Birt:
7. febrúar 2010
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „2010 - Ár líffræðilegrar fjölbreytni“, Náttúran.is: 7. febrúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/02/07/2010-ar-liffraedilegrar-fjolbreytni/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. febrúar 2010

Skilaboð: