Þema náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2011 er sjálfbær ferðaþjónusta. Verðlaunin verða veitt í sautjánda sinn og nema 350.000 dönskum krónum. Þau verða veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur verið í fararbroddi og stuðlað að því að draga úr umhverfisáhrifum ferðaþjónustu á Norðurlöndum.

Öllum er heimilt að senda inn tillögur um verðlaunahafa. Í tillögunum þarf eftirfarandi að koma fram auk rökstuðnings:

  1. Kynning og lýsing á starfseminni.
  2. Hver hefur haft veg og vanda af starfseminni.
  3. Starfsemin skal vera faglega unnin og hafa þýðingu fyrir almenning í einu eða fleiri norrænu ríkjanna.
  4. Tillagan má að hámarki vera tvær A-4 síður og skal henta til fjölföldunar.

Verðlaunahafinn verður valinn af nefnd sem skipuð er fulltrúum norrænu ríkjanna fimm og sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja.

Tillögurnar skulu sendar inn á sérstöku eyðublaði og þurfa að berast skrifstofu sendinefndar Noregs í Norðurlandaráði, í síðasta lagi föstudaginn 10. desember 2010 kl. 12.00. Eyðublaðið er hægt að nálgast á vefsíðu Norðurlandaráðs, norden.org, eða hjá skrifstofu norsku sendinefndarinnar.

Markmiðið með umhverfisverðlaununum, sem veitt voru í fyrsta sinn árið 1995, er að efla áhuga á náttúru- og umhverfisstarfi á Norðurlöndum.

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2010.

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2009.

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2008.

Birt:
5. desember 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Sjálfbær ferðaþjónusta er þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2011“, Náttúran.is: 5. desember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/05/sjalfbaer-ferdathjonusta-er-thema-umhverfisverdlau/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: