Samstöðufundur í Grindavík
Vegna yfirvofandi hættu á að jarðhitaauðlindum í landi Grindavíkur verði á næstu dögum ráðstafað til erlends einkaaðila er boðað til fundar í Saltfisksetrinu í Grindavík, þriðjudaginn 25. ágúst, kl. 18:00
Á fundinum mun Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri í Grindavík, skýra hvernig málið horfir við sveitarfélaginu og þeir Guðbrandur Einarsson, fulltrúi Samfylkingar í stjórn HS veitna, og Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í stjórn OR, fjalla um hvernig áformin líta út frá þeirra sjónarhóli. Samstöðuhópur um að halda HS orku í opinberri eigu vill með fundi sínum heita á ríkisstjórn Íslands að standa vörð um auðlindir landsmanna með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Árið 1974 var Hitaveita Suðurnesja stofnuð af sveitarfélögunum á Suðurnesjum og ríkinu. Allar götur síðan hefur fyrirtækið verið hornsteinn í samfélagi Suðurnesjamanna, séð fyrir yl og birtu, skapað störf og arð. Verði úr kaupum Magma Energy á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS orku á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs væri verðmætum í almannaeigu fórnað fyrir óljósan ávinning einhverra aðila. Framsal auðlindarinnar, hvort heldur sem er í 65 eða 130 ár, er í reynd í varanlegt þar sem slíkum nýtingaráformum fylgir sú augljósa áhætta að auðlindin verði uppurin áður en framsalstíminn er liðinn.
Fundarstjórar verða þau Valgerður Halldórsdóttir og Bergur Sigurðsson.
Myndin er tekin við Austurengjahver sem er um 1,5 km austur af jarðhitasvæðinu (túristasvæðið) Seltúni við Krýsuvík. Austurengjahver er í hættu, þar sem þar yrði borað ef virkjað verður í Krýsuvík. Einstakt hverasvæði sem allt of fáir hafa skoðað enda þarf að hafa fyrir því að ganga að því. Ljósmynd: Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Bergur Sigurðsson „Samstöðufundur í Grindavík“, Náttúran.is: 24. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/24/samstooufundur-i-grindavik/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. maí 2010