Fimm stjörnur í grænku
Orð dagsins 24.júní 2008
Þriðja árið í röð vermir Ford Focus 1,8 Flexifuel toppsætið á lista samtakanna Gröna bilister (Grænt bílafólk) í Svíþjóð. Í öðru sæti er gasbíllinn Volkswagen Touran, en tveir aðrir etanóldrifnir Fordbílar deila með sér þriðja sætinu. Notagildi bílanna hefur meira vægi í lista ársins en fyrri ár, en bestu bílarnir eru valdir af nokkrum dómnefndum sem endurspegla þarfir mismunandi hópa. Einungis er valið á milli bíla sem standast skilgreiningu sænsku vegagerðarinnar (Vägverket) á visthæfum bílum, sem þýðir m.a. að koltvísýringslosun má ekki vera meiri en 120 g/km. Þar að auki verða bílarnir á lista Gröna bilister að hafa ESP stöðugleikastýringu og a.m.k. 5 stjörnur í árekstrarprófun og 2 stjörnur fyrir öryggi fótgangandi vegfarenda skv. Euro NCAP. Alls stóðust 30 bílgerðir þessar kröfur og komust því á lista yfir tilnefnd ökutæki. Flestir þessara bíla ganga fyrir etanóli eða gasi, en þó voru í hópnum 12 litlir díselbílar. Toyota Prius var eini bensínbíllinn sem var tilnefndur.
Lesið fréttatilkynningu Gröna bilister 14. júní sl.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Fimm stjörnur í grænku“, Náttúran.is: 24. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/30/fimm-stjornur-i-graenku/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. júní 2008