Hveragerðisbær mun innleiða þriggja tunnu sorpflokkunarkerfi í bæjarfélaginu frá og með morgundeginu 1. desember. Þjónustuaðili Hveragerðisbæjar í hinu nýja kerfi er Íslenska gámafélagið en það hefur áður innleitt þriggja flokka kerfi í nokkrum sveitarfélögum. Genngur það í daglegu tali undir heitinu „Stykkishólmsleiðin" þar sem Stykkishólmur var fyrsta sveitarfélagið til að gera samning við Íslenska gámafélagið um svokallað þriggja flokka kerfi.

Þriggja flokka kerfið felur í sér að bæjarbúar taka skrefið til fulls í flokkun sorps og hefja flokkun sorps og moltugerð lífræns úrgangs frá öllum heimilum í bæjarfélaginu frá og með 1. desember 2009. Er þetta skref í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu bæjarfélagsins í umhverfismálum en Hveragerði var eitt fyrsta sveitarfélagið á landinu til undirrita Ólafsvíkuryfirlýsingu og hefja vinnu í anda Staðardagskrár 21. Nú er hafin vinna við vottun bæjarfélagsins sem Green Globe samfélags og er innleiðing flokkunar mikilvægt skref í þeirri vinnu (sjá frétt).

Rétt er að geta þess að í ljósi yfirvofandi lokunar sorpurðunarstaðarins að Kirkjuferju er mikilvægt að leitað verði allra leiða til að minnka urðun og flutning sorps út úr bæjarfélaginu og þar með þann kostnað sem óhjákvæmilega myndi ella falla á bæjarbúa. Með þessari breytingu á sorphirðu í bæjarfélaginu telur bæjarstjórn að hægt sé að stilla hækkun kostnaðar vegna sorphirðu og urðunar í hóf auk þess sem stórt skref er stigið í átt að uppfyllingu markmiða í þegar samþykktri svæðisáætlun um meðhöndlun sorps en þar er lofað minnkun á sorpi til urðunar um 70% og að allri urðun lífræns úrgangs verði hætt árið 2020. Hækkun mánaðarlegs gjalds verður á milli 8-900 krónur pr. mánuð á heimili en fyrir þá sem þegar greiða fyrir græna tunnu umtalsvert minna.

Nánari upplýsingar um þriggja tunnu kerfið má finna á síðunni www.flokkarinn.is eða á heimasíðu Íslenska gámafélagsins.

Birt:
30. nóvember 2009
Uppruni:
Hveragerðisbær
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Þriggja tunnu sorpkerfi innleitt í Hveragerði“, Náttúran.is: 30. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/30/thriggja-tunnu-sorpkerfi-innleitt-i-hverageroi/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: